Útför skipulögð

Prestur eða athafnarstjóri trúfélags

Aðstandendur ráða því hvaða prestur eða athafnarstjóri trúfélags sér um útförina. Þeir snúa sér yfirleitt beint til sóknar- eða safnaðarprests eða til Útfararstofunnar sem hefur samband við þann prest/athafnarstjóra sem óskað er eftir. Huga þarf að því að taka saman helstu æviatriði hins látna.

Staður og stund

Ákveða þarf stað og stund fyrir kistulagningu og útför í samráði við prest eða athafnarstjóra. Útför getur farið fram í hvaða kirkju sem er í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Útfarartímar eru þrír, kl. 11.00, 13.00 og 15.00, mánudaga til föstudaga.

Kistulagning

Kistulagning fer venjulega fram í Fossvogskapellu eða Bænhúsi við Fossvogskirkju, 2 til 6 dögum eftir andlát, allt eftir óskum aðstandenda. Einnig er mögulegt að hafa kistulagningu beint á undan útförinni í viðkomandi kirkju.

Kistulagt er alla virka daga frá kl. 8.30 -15.00, nema föstudaga frá kl. 8:30 - 10:30 í Kapellu og Bænhúsi. 

Legstaður

Ef frátekinn legstaður er ekki fyrir hendi mun útfararstjóri útvega legstað í samráði við aðstandendur. Rétt er að hafa í huga að hægt er að taka frá einn eða tvo legstaði við hlið hins látna.


Önnur atriði:

Tónlistarfólk

Val á tónlistarfólki, svo sem organista, öðrum hljóðfæraleikurum, kórum og einsöngvurum.

Burðarmenn

Ákveða þarf hvort burðarmenn kistunnar séu 6 eða 8 talsins.

Dánarvottorð

Læknir hins látna eða krufningarlæknir gefur út dánarvottorð. Aðstandendur tilkynna andlátið hjá skiptaráðanda og leggja þar fram dánarvottorðið. Skiptaráðandi heldur vottorðinu en skriflega staðfestingu skiptaráðanda skal síðan afhenda þeim presti sem annast útförina.

Í kyrrþey

Sumir óska eftir því að útför fari fram í kyrrþey og ber að virða þá ósk.

Auglýsingar eða þakkarkort

Venja er að tilkynna andlát með auglýsingum í dagblöðum og útvarpi. Því næst er auglýst hvenær útför fer fram og loks er algengt að þakka fyrir auðsýnda samúð með auglýsingu eftir jarðarförina. Sumir kjósa að senda út þakkarkort.

Stundum er tekið fram í auglýsingum að blóm og kransar séu afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hins látna er bent á að snúa sér til líknarsamtaka.

Erfidrykkja

Margir bjóða kirkjugestum í erfidrykkju eftir útför. Erfidrykkjur eru haldnar á heimili aðstandenda, safnaðarheimili sóknarkirkjunnar eða í sérstökum sal úti í bæ.

Minningarathöfn

í sumum tilvikum er haldin minningarathöfn eða kveðjuathöfn á öðrum stað er útförin, t.d. þegar hinn látni er jarðsunginn fjarri heimaslóðum. Minningarathöfn er einnig oft haldin þegar menn farast af slysförum og lík þeirra finnast ekki, t.d. eftir sjóslys.

Jarðarför eða bálför

Líkbrennsla hefur færst í vöxt hér á landi og eru bálfarir um 53% af öllum útförum á höfuðborgarsvæðinu. Aðstandendur velja á milli jarðarfarar og bálfarar ef ekki liggur fyrir ósk hins látna.

Ef bálför er valin þarf að fylla út sérstakt eyðublað hjá útfararstjóra og hann aflar leyfa hjá viðkomandi sýslumanni. 

Bálför er eins og venjuleg útför nema að því leyti að kistan er ekki borin til grafar. Eftir bálför er askan varðveitt í duftkeri. Aðstandendur ákveða hvenær duftkerið er jarðað í samráði við útfararstjóra, þó eigi síðar en sex mánuðum eftir útför. Oft er prestur kvaddur til þegar duftker er jarðsett og flytur hann þá bæn og blessunarorð við gröfina.

Sérstakir grafreitir fyrir duftker eru í Sóllandi, í Fossvogskirkjugarði, í Gufuneskirkjugarði og í Kópavogskirkjugarði. Einnig er hægt að jarða duftker í hvaða grafreit sem er með samþykki umsjónarmanns leiðis.

Einnig má sækja um leyfi til dreifingar á ösku látinna einstaklinga til sýslumanns. 

Aðrar leiðir

Hægt er að velja borgaralega útför án þjónustu prests. Fólk úr öðrum trúfélögum en kristnum og fólk utan trúfélaga á rétt á legstað í kirkjugörðum og þjónusta Útfararstofunnar stendur því að sjálfsögðu einnig til boða.

Næsta síða: Hvernig fer útför fram.

Efst á síðu

Til baka