Um okkur

Breytingar í samfélaginu hafa haft áhrif á þjónustu okkar. Við höfum brugðist við kalli tímans og breytingum í samfélagi okkar. Undanfarið höfum við unnið að því að breyta rótgrónu fyrirtæki í nútímalegt þekkingarfyrirtæki.

Við höfum líka fylgst grannt með þróuninni sem orðið hefur í nágrannalöndum okkar undanfarin ár og höfum tileinkað okkur það sem okkur finnst skipta máli. Við kynnum með stolti þjónustu sem er ný af nálinni hér á landi og við höfum unnið að af alúð við að þróa og þroska.

Kirkjugarðarnir stofnuðu útfararþjónustu árið 1949 og var tilgangurinn að "að lækka kostnað við útfarir og minnka allt prjál." Þau orð voru í tíma töluð og eiga sjálfsagt að einhverju leyti enn við. Árið 1994 var útfararþjónustan gerð að sjálfstæðu fyrirtæki sem er í eigu Kirkjugarðanna.

Útfararstofa Kirkjugarðanna annaðist um tæp 50% af útförum á þjónustusvæði Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Í byrjun árs 2015 var lögfræðiþjónustu bætt við starfsemi Útfararstofunnar en fyrirmynd af slíkri þjónustu á vegum útfararfyrirtækja er sótt til nágrannalanda okkar. Við höfum að markmiði að vera í hópi framsæknustu og öflugustu útfararstofa á Norðurlöndunum og hafa systurstofur okkar í nágrannalöndunum veitt okkur mikilvæga aðstoð við innleiðingu þeirra nýjunga sem við bjóðum nú upp á.

Útfararstofa Kirkjugarðanna hefur upphaflegt markmið Kirkjugarðastjórnar Reykjavíkur í heiðri  í rekstri sínum, það er að halda kostnaði við útfarir eins lágum og kostur er. Arður af rekstrinum rennur til eigandans, Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis, og er notaður til samfélagslegra verkefna við rekstur kirkjugarðanna.
Stjórn Útfararstofunnar er kosin á aðalfundi Kirkjugarðanna og Útfararstofunnar sem venjulega er haldinn í maí ár hvert. Starfsfólk er 10 talsins. Skrifstofa Útfararstofunnar er til húsa að Vesturhlíð 2 í Fossvogi og þar tekur starfsfólk vel á móti aðstandendum og öðrum sem þiggja þjónustu þeirra í hlýlegu og fallegu umhverfi.