Útgefið og birt efni

Hér fyrir neðan birtast greinar og viðtöl sem birst hafa um starfsemi Útfararstofunnar:

 

Í Tímaritinu MAN 2017, 7. tbl, birtist viðtal við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Útfararstofu Kirkjugarðanna en hún var af tímaritinu valin viðskiptakona mánaðarins 

 

VINNA MEÐ DAUÐA ER Í ÞÁGU LÍFS

Umsjón; Björk Eiðsdóttir Myndir: Kristinn Magnússon

Elín Sigrún Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Útfararstofu Kirkjugarðanna ehf og hefur gegnt því starfi í þrjú ár en bjó þá að áralangri reynslu af lögfræðistörfum. Í hugum margra eru störf tengd andláti og útförum sveipuð dulúð og jafnvel hræðslu en Elín segir nútímakröfur kalla á breytta útfararþjónustu og segir fyrirtækið hafa einbeitt sér aðþeirri þróun undanfarin ár.

ESJ„Fyrir þremur árum settum við okkur það markmið að Útfararstofu Kirkjugarðanna yrði í hópi framsæknustu og öflugustu útfararstofa á Norðurlöndunum. Við höfum nú náð því markmiði og vakið athygli og aðdáun erlendis fyrir að breyta gamalli útfararstofu í nútíma þjónustufyrirtæki. Útfararstofa Kirkjugarðanna er oft nefnd á Norðurlöndunum sem dæmi um það sem hægt er að gera á fáum árum,“ útskýrir Elín aðspurð um breytingarnar sem gerðar hafa verið. „Við sóttum fyrirmyndir okkar til Norðurlandanna og þar er aukin áhersla lögð á að virða og koma til móts við andlegar þarfir ástvina. Undirbúningur útfara er ekki lengur aðeins takmarkaður við skráningu upplýsinga um fyrirkomulag útfara heldur að gefa fólki tíma til samtala um alhliða undirbúning útfarar ástvinar. Við höfum aukið þjónustu okkar á þessum sviðum með sérmenntuðu fagfólki. Áhersla er lögð á hæft, vel menntað og reynslumikið starfsfólk og að jafnt hlutfall kvenna og karla sé þjónustunni. Nú taka guðfræðingur og félagsráðgjafi með áratuga reynslu á móti syrgjendum og hjálpa, styðja og leiðbeina við undirbúning og framkvæmd útfarar. Þá starfa tveir lögfræðingar hjá fyrirtækinu auk reynslumikils fagfólks sem hefur langa reynslu við útfararþjónustu.“

 

ALGENGT AÐ ÆTTINGJAR KOMI AÐ HINSTU SNYRTINGU

Elín segir að í breytingunum felist jafnframt önnur nálgun eða aðferðarfræði en áður tíðkaðist. „Við segjum fólki ekki hvernig hlutirnir eiga að vera, heldur bjóðum ástvinum til samtals. Við spyrjum t.d. opinna spurninga til að fá fram vilja og langanir og bregðumst við og reynum að koma til móts við óskir.“ Elín segir algengt að fyrsta samtal taki eina til tvær klukkustundir. Fyrst séu skráð niður helstu atriði varðandi hinn látna og ýmis atriði rædd, líka uppáhalds litir og blóm viðkomandi, rætt um fatnað, tónlist og lífsafstöðu varðandi trú/trúleysi og talað um aðstæður fjölskyldunnar. „Allt eru þetta þættir sem skipta máli við útfararundirbúninginn. Þegar konur koma að undirbúningi útfarar móður, systur, frænku eða tengdamóður hafa þær oft skoðun á snyrtingu og hárgreiðslu. Þá bjóðum viðþeim að snyrta sjálfar, koma með snyrtibuddu hinnar látnu og mála, lakka neglur og greiða hárið. Það eru oft miklar þakkir sem við fáum frá þeim konum sem þiggja það tilboð okkar.“ Elín segir viðbrögðin við breytingunum hafa verið mikil og góð. „Ástvinir hringja oft daginn eftir útför til að fara yfir hvernig til hafi tekist, þakka og fara yfir allt ferlið. Við erum þakklát fyrir ábendingar og það er hluti af okkar lærdómsferli. Það eru forréttindi að starfa viðútfararþjónustu að vera treyst til að undirbúa og fylgja fjölskyldum við síðustu kveðjustund. Þakklætið sem við njótum fyrir okkar þjónustu er vermandi. Það er vandfundinn vinnustaður sem nýtur eins mikils þakklætis. Og þar sem ég hef samanburðinn get ég fullyrt hve ólíkt er að starfa í útfararþjónustu eða lögmennsku þar sem ágreiningurinn og niðurrifið er ráðandi.“

 

FUNDAÐ UM EIGIN ÚTFÖR

Útfararstofan er í fallegu húsi við Fossvogskirkjugarð og segir Elín húsakynnin nýverið hafa verið endurbætt svo bjartir og hlýir litir taki viðþeim sem þangað koma. „Það er heldur engin tilviljun að við bjóðum ástvinum til borðstofu. Samtölin fara fram við borðstofuborð, þeim er ætlað að minna á borðstofuna heima, þar sem öllum líður best.“ Ein af nýjungum Útfararstofu kirkjugarðanna er að bjóða fólki til samtals um fyrirkomulag eigin útfarar. Ástvinir verða þá upplýstir um vilja einstaklingsins þegar komið er aðþví að skipuleggja útförina. „Í nútímaþjóðfélagi eru fjölskyldumynstur oft flókin og ágreiningur getur komið upp um framkvæmd útfara. Yfirlýsing hins látna er aðeins viljayfirlýsing en ekki löggilt skjal en léttir nánustu aðstandendum undirbúning útfararinnar.“

 

HÆGT AÐ REIKNA ÚT SÍN EIGIN ERFÐAMÁL

Með breyttum tíðaranda hljóta útfararsiðir að breytast. Með fjölþjóðlegra samfélagi og aukinni breidd í trúarafstöðu fólks segir Elín útfararstofuna sinna öllum útförum án tillits til trúar hins látna. „Það er gefandi að kynnast ólíkri afstöðu og útfararsiðum ólíkra trúarhópa. Í sumum tilvikum er þess óskað að enginn forstöðumaður trúfélags stýri útför og þá sér útfararstjóri frá okkur um þáþjónustu.“ En það er aðýmsu að huga við andlát og segir Elín þau einnig bjóða upp á lögfræðiþjónustu við ritun erfðaskrár og kaupmála og vinnu við frágang dánarbússkipta.

„Með ritun erfðaskrár og kaupmála er hægt að bæta og breyta rétti aðstandenda. Á heimasíðunni www.utfor.is er að finna reiknivél sem sýnir fólki hvað verður um eignir þess ef ekkert er að gert.“

 

ALLIR ÆTTU AÐ FÁ SÓMASAMLEGA ÚTFÖR

Elín segir að sér þyki vænt um skilgreind markmið Kirkjugarða Reykjavíkur frá 1949 meðþví að setja á laggirnar eigin útfararþjónustu þess efnis „að lækka kostnað og minnka allt prjál“.

 „Markmiðið var að útför væri sómasamleg en án sóunar. Kistur, umbúnaður og skreytingar áttu ekki að sýna sundurgerð sem opinberaði að sumir væru meira virði en aðrir. Allir ættu að fá sómasamlega útför en án óþarfa tilkostnaðar. Að kveðja vel skiptir mestu máli þá og nú. Í anda gilda ÚK er neytendastefna okkur hjartans mál. Við leggjum mikla áherslu á kostnaðarvitund og birtum því upplýsingar um verð á heimasíðunni okkar www.utfor.is  Hagkvæm innkaup gerðu okkur mögulegt að lækka kistuverð um 30%. Við erum vistvæn og viljum að allt sem tengist útför virði lífið og keðju þess.“ Elínu verður einnig tíðrætt um aukna samkeppni á þessu sviði og segir að flestir eigendur útfararstofa á höfuðborgarsvæðinu séu fyrrum starfsmenn Útfararþjónustu Kirkjugarðanna. Samkeppni sé mikilvæg á þessu sviði sem öðrum og henni taki hún fagnandi.

 

DAUÐATABÚ SAMFÉLAGSINS

Aðspurð út í síaukna fjarlægð okkar við dauðann rifjar Elín upp sögu; „Ég sat nýverið aðalfund samtaka norskra útfararstofa og hlýddi á öflugan fyrirlesara sem sagði, að þegar hann var 15 ára fyrir rúmum 40 árum hafi verið þrjú tabú í samfélaginu, það voru kynlíf, trú og dauði. Nú væri eina tabú samfélagsins dauði. Mér fannst þetta athyglivert. Ég hef mikið hugsað um dauðatabú samfélagsins og hve þungbært það er að fólk á í erfiðleikum með dauðann þegar komið er að kveðjustund. Ég er sannfærð um að það myndi auðvelda og létta ef samtal um dauðann væri opnara í fjölskyldum. Og það er svo merkilegt að ef fólk talar um dauðann verður lífið betra og ríkulegra.

Þegar rætt er um tabú verður frelsið til að njóta lífsins meira. Við hvetjum því fólk til að tala um dauðann. Innlegg í þá umræðu er tilboð um frágang yfirlýsingar um hinsta vilja. Það er orðið algengt að deyjandi einstaklingur kemur til okkar með ástvinum sínum og biður um samtal varðandi lífslok. Það eru merkileg og innihaldsrík samtöl.

 

FYRSTA KISTULAGNINGIN ERFIÐ REYNSLA

Fjarlægðin er þrátt fyrir allt staðreynd og mörgum stendur stuggur af útförum og ferlinu í kringum leiðina að hinstu hvílu. Elín hefur sína eigin upplifun af því. „Ég var fyrst viðstödd kistulagningu og útför þegar ég var þrítug. Það var við andlát föður míns sem varð bráðkvaddur sjötugur. Það var mér afar erfið reynsla og ég er sannfærð um að sú reynsla hefur leitt til þess að ég hvet fólk eindregið til að bjóða börnum og unglingum að koma til kistulagningar afa og ömmu svo útför pabba og mömmu verði ekki fyrsta reynslan. En við mína fyrstu kistulagningarathöfn, sem ég kveið ógurlega, upplifði ég einstaka fegurð í Fossvogskapellu. Ég tel að þessi upplifun hafi haft þau áhrif að tveimur áratugum síðar sóttist ég eftir því að fá að vinna við þessa mikilvægu þjónustu og er þakklát fyrir að vera treyst til að sinna henni.“

 

ERFIDRYKKJAN OFT MIKILVÆG

Samkvæmt Elínu undirbýr hver manneskja að meðaltali útför ástvinar tvisvar á ævinni. „Á þeim tíma sem undirbúningurinn fer fram eru ástvinir í sorg og þurfandi fyrir hlýja móttöku og afburða þjónustu. Ég tel það vera mikilvægt að í útfararþjónustu sé fagfólk sem hefur getu og tíma til að tala við syrgjandi ástvini. Samtalið er mikilvægt til að lyfta upp hverjar séu þarfir ástvina og hver var vilji hins látna. Við virðum óskir og löngun fólks. Ég finn það glöggt í samtölum við eftirlifendur hve mikils virði það er að fylgja óskum hins látna. Ástvinir tjá oft þakklæti fyrir þegar vilji hins látna liggur fyrir. Algengast er þó að það eina sem hinn látni hefur tjáð sig um er ósk um útför í kyrrþey og/eða bálför. Ég tel að í mörgum tilvikum sé ósk um útför í kyrrþey tjáning um hógværð og um að kostnaður vegna fjölmennrar erfidrykkju lendi ekki á eftirlifendum. Það er kannski alls ekki vandinn, börnin hafa oftast vilja og getu til að bjóða til erfidrykkju og hún er mikilvæg ástvinum. Það er líka unnt að fara svo margar leiðir í dag við erfidrykkju, það þarf ekki endilega að vera rjómatertuhlaðborðið. Virðing í garð hins látna er grundvallaratriði, bæði í því sem sjáanlegt er í þjónustunni, í athöfninni sjálfri og líka í sambandi við það sem ekki sést, þ.e. við flutning frá dánarstað, aðbúnað, klæðnað og snyrtingu.“

 

ÁSKORUN HVERS DAGS AÐ LIFA FALLEGA

„Vinna með dauða er í þágu lífsins. Við erum samverkafólk ástvina og prestanna í þeim efnum. Áskorun hvers dags er að lifa fallega og fara vel með líf sitt. Ekkert er gefið. Fyrir mér er trúarafstaða mín mér mikilvæg. Ég óttast ekki dauðann. Fyrst og fremst hugsa ég þó um ástvini mína, um tvíburadrengina mína sem eru 11 ára og mig langar svo mikið til að fylgja og sjá dafna í lífinu. Ég hef unnið minn hinsta vilja og mér fannst það gott. Þar hef ég skrásett mínar óskir varðandi eigin útför og einnig hef ég skrifað erfðaskrá,“ útskýrir Elín.

Elín varð móðir seint á ævinni. „Það er mikil blessun að eignast börn og ég veit að það er ekki sjálfgefið. Ég glímdi við barnleysi ESJog sorg í því sambandi. En þegar ég var 45 ára og maðurinn minn 52 ára gerðist kraftaverkið, ekki eitt heldur urðu til tveir öflugir og undursamlegir drengir. Ég vann mikið strax eftir að ég lauk háskólanámi, var í lögmennsku og í krefjandi stjórnunarstörfum og var algerlega til í undrið. Ég var heilbrigð á meðgöngunni, aldrei misdægurt, glímdi ekki við flökurleika einn dag sem er svo sannarlega ekki sjálfgefið. Ég hef alla ævi notið þess að vera hraust og orkumikil. Við hjónin segjum gjarnan að drengirnir haldi okkur ungum. Við höfum kynnst mikið af ungu, dásamlegu fólki, foreldrum vina drengjanna okkar en um svo margt erum við á öðrum stað en vinir okkar og jafnaldrar sem eru flestir að huga að því að minnka við sig húsnæði. En við erum að huga að stærra húsnæði, okkar þarfir eru aðrar en jafnaldranna.“ Elín sem hafði lengi verið í krefjandi störfum tók sér tveggja ára fæðingarorlof. „Ég fann á þeim tíma hve tilbúin ég var til að taka mér hlé frá störfum og tilbúin í að helga mig langþráðu móðurhlutverki. Það kom mér hins vegar nokkuð á óvart að kollegar mínir og samstarfsfélagar á þeim tíma, einkum konur, töldu að þetta væri of langur tími; „það gæti fennt í sporin“. Þær vildu vara mig við. Ég lét það ekki á mig fá, lífið er mér mikilvægast. Og mikilvægast í lífinu er fólkið, ástvinirnir,“ segir Elín að lokum.

__________________________________________________________________________________________________________________________

Í Tímariti félagsráðgjafa 2017, birtist viðtal við Emilíu Jónsdóttur, félagsráðgjafa sem hóf störf hjá Útfararstofu Kirkjugarðanna árið 2016:                                                                             

 

                                                                       Félagsráðgjafar á nýjum starfsvettvangi

 Emilía Jónsdóttir                                                           Þröstur Haraldsson

 

Menntunin og reynslan nýtast mér vel

Emilía Jónsdóttir félagsráðgjafi hóf störf hjá Útfararstofu kirkjugarðanna í lok síðasta árs

– Hér starfa ég við að taka á móti að standendum þegar andlát hefur átt sér stað og aðstoða þá við að skipuleggja alla þætti útfarar, segir Emilía Jónsdóttir félagsráð gjafi þegar blaðamaður Tímarits félagsráðgjafa hittir hana að máli á skrifstofu Útfararstofu kirkjugarðanna í Fossvogi. – Það getur átt við andlát hérlendis eða erlendis, svo sem þegar þarf að flytja hinn látna heim frá útlöndum eða til útlanda. Þetta innifelur allt sem gera þarf, við bjóðum til samtals, þar sem við leitumst við að fá fram óskir og væntingar varðandi útförina. Í framhaldi samtalsins pöntum við kirkju og prest, útvegum tónlist og blóm og annað sem til þarf, bætir hún við.

Emilía lærði félagsráðgjöf hér á landi og hóf störf strax að námi loknu hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar. Þar sinnti hún almennri félagslegri ráðgjöf í rúm tíu ár áður en hún flutti sig um set í Fossvoginn 1. desember síðastliðinn. Hún segir að það hafi blundað með henni nokkuð lengi að fara inn á þennan vettvang.

– Ég frétti af starfi hér fyrir tveimur árum en var þá á leið í fæðingarorlof. Svo ákvað ég að senda inn umsókn í fyrra og þá vildi svo til að það stóð til að ráða. Í millitíðinni skrifaði ég raunar meistaraprófsritgerð um félagsráðgjafa sem voru í óhefðbundnum störfum. Mig grunaði þó ekki fyrir ári að ég yrði fljótlega komin í spor viðfangsefna minna. En ég var greinilega farin að kynna mér þetta ómeðvitað.

Fjölþætt þjónusta

Hún er ekki í vafa um að menntun sín og reynsla sem félagsráðgjafi nýtist sér vel í þessu starfi.

– Ég finn hvað starfsreynslan og menntunin nýtist mér vel. Hér hitti ég þverskurð af þjóðfélaginu, fólk í alls konar stöðu. Sumir voru í erfiðleikum fyrir, jafnvel eftir ítrekuð áföll. Oft þarf að aðstoða fólk við að sækja um útfararstyrki og annað og leita eftir réttindum sem fólk hefur. Samtalstæknin nýtist ekki síður vel. Stundum eru aðstandendur mjög ósammála, geta jafnvel ekki hugsað sér að hittast, og þá er það mitt hlutverk að benda þeim á aðrar leiðir og hafa milligöngu. Sorgin tekur á sig ýmsar myndir og þar kemur reynsla félagsráðgjafans að góðum notum.

– Svo getur ýmislegt bæst við, til dæmis aðstoð við gerð erfðaskrár og að skrá hinsta vilja fólks þar sem fólk gefur fyrirmæli um eigin útför sem við varðveitum. Við veitum foreldrum sem missa börn sérstaka þjónustu, þeir fá ókeypis kistu og alla útfararþjónustuna og við erum með konur á okkar snærum sem búa til kærleiksteppi sem hægt er að setja í kisturnar.

– Auðvitað tekur það á að heyra harmagrát foreldra sem hafa misst börnin sín. Þá er gott að hafa gott sam starfs fólk að tala við. Að sama skapi er það gefandi að geta létt undir með fólki, til dæmis að útvega tónlistarfólk og blóm, þannig að ættingjarnir þurfi ekki að hafa þær áhyggjur. Nóg er nú samt. Við sinnum yfirleitt ekki neinni sorgarúrvinnslu, það taka prestarnir að sér. En við leiðbeinum fólki ef það vantar aðstoð, segir hún.

Þverfaglegt teymi

Hún segist vera mjög sátt við þetta starf og finnst hún vera á réttri hillu. – Ég hef líka heyrt að samstarfsfólkið er ánægt með að fá félagsráðgjafa hingað til þess að aðstoða við að sækja um hitt og þetta, ná í gögn og þess háttar. Hér starfar þverfaglegt teymi, lögfræðingur, guðfræðingur, félagsráðgjafi og fólk með alls konar menntun og reynslu sem hjálpast að. Menntun mín nýtist vel. Hér þarf ég að mæta fólki þar sem það er statt og finna lausnir og leiðir út úr öngstrætum, finna réttan söngvara eða aðra kirkju ef sú fyrsta er upptekin. Ég er meira í sambandi við presta og organista en stofnanir en vinnan er sú sama, að púsla hlutunum saman fyrir einstaklinginn, hvort sem það er endurhæfingaráætlun eða útför, þá þarf allt að smella saman, segir Emilía Jónsdóttir.

 

 

 _________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

 

Í Fréttatímanum 21. júní birtist viðtal við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur framkvæmdastjóra Útfararstofunnar. Í viðtalinu, sem lesa má hér, fer Elín yfir nýjar áherslur í starfsemi Útfararstofunnar. 

Eftirfarandi viðtal birtist við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Útfararstofunnar í VIKUDAGSKRÁNNI 13.-19. maí 2015.

Vönduð vinnubrögð og fagmennska hjá Útfararstofu Kirkjugarðanna

 Það verða allir fyrir því á lífsleiðinni að missa náinn ættingja eða ástvin. Þótt sorgin sé þungbær er að mörgu að huga og eitt af því er útförin. Hjá Útfararstofu Kirkjugarðanna starfa 10 manns með mikla starfsreynslu en frá árinu 1994 hefur útfararstofan haft umsjón með rúmlega 15.000 útförum.

Vikudagskráin hafði samband við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, lögfræðing og framkvæmdastjóra Útfararstofu Kirkjugarðanna og spurði hana m.a. að því hvað fólk ætti að gera þegar það missir náinn ættingja eða ástvin.

 

Hvert er fyrsta skrefið varðandi útförina sem fólk þarf að taka þegar það lendir í slíkri lífsreynslu að missa

náinn ættingja eða ástvin?

,,Við leggjum ríka áherslu á persónulega þjónustu og tökum vel á móti fólki. Fyrst er hringt í útfararstofuna og rætt við útfararstjóra í síma og oftast ákveðið hvenær viðtal verði. Sumir koma þó beint á skrifstofu okkar í Fossvogi. Við viljum koma til móts við óskir og fjölbreytilegar þarfir ástvina. Við leggjum áherslu á að útfararundirbúningur sé góður, persónulegur og skýr varðandi alla þætti. Útfararstofa Kirkjugarðanna er þekkt fyrir vönduð vinnubrögð og fagmennsku,” segir Elín Sigrún. ,,Útfararstjórar okkar eru Hugrún Jónsdóttir, sem hefur starfað hjá útfararstofunni yfir 20 ár og Rósa Kristjánsdóttir, djákni og hjúkrunarfræðingur. Hún kom til starfa hjá okkur í ársbyrjun og starfaði áður á Landspítalanum. Það er lán útfararstofunnar að starfsfólk hefur fjölbreytta þekkingu, menntun og mikla reynslu.“

 

Þið eruð með áratuga reynslu þegar kemur að útförum og þekkið vel til - hverjar eru helstu spurningarnar

sem þið fáið frá fólki sem leitar til ykkar?

,,Spurningarnar eru fjölmargar. Svíar hafa komist að því að það eru að meðaltali 52 spurningar sem vakna hjá ástvinum við útfararundirbúninginn. Þarfir fólks eru ólíkar og því engin ástæða til að hika við að spyrja og ræða málin. Við viljum koma til móts við óskir fólks og því eru fundirnir haldnir og samtölin mikilvæg.”

Áhersla á neytendavernd og afburðaþjónustu við viðskiptavini Þótt að sorgin sé þungbær þá spyr fólk eðlilega um kostnað við útförina þótt það vilji gera vel við látinn ættingja/ástvin. Hver er kostnaðurinn við útför, er hægt að velja um mismunandi leiðir og hvað er innifalið í kostnaðinum?

 

,,Útfararstofa Kirkjugarðanna leggur áherslu á neytendavernd og afburðaþjónustu við viðskiptavini sína. Tilgangur kirkjugarðanna með stofnun útfararstofu árið 1949 var “að lækka kostnað við útfarir og minnka allt prjál”. Þau orð voru í tíma töluð og eru sístæð áminning. Útfararstofa Kirkjugarðanna heldur upphaflegt markmið í heiðri í rekstri sínum, að halda kostnaði við útfarir eins lágum og kostur er. Við viljum líka að útfararkostnaður sé þekktur áður en til útfarar kemur og ræðum því um kostnað við ástvini. Óvæntir reikningar eiga ekki að þekkjast í útfararþjónustu. Flestir skipta við útfararstofur að meðaltali tvisvar á ævinni og á þeim tíma sem viðskiptin fara fram er fólk í sorg og á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af kostnaði eða fjármálum. Við birtum því verðskrá á heimasíðu okkar og nefnum dæmi um útfararkostnað. Látlaus útför frá kapellunni í Fossvogi kostar t.d. um 230 þúsund. En umfang útfara er breytilegt, allt eftir óskum fólks og verð fer eftir þeim óskum. Algengt er  að útfararkostnaður sé um 550 þúsund, þ.e. kostnaður vegna þjónustu útfararstofunnar, líkklæði, kista, tónlist og blóm. Kostnaður vegna erfidrykkju og auglýsinga er ekki inn í þeirri tölu en kostnaður vegna erfidrykkju fyrir 100 manns má reikna með sé frá 175.000 til 245.000 kr. Auglýsingakostnaður er oft um 100.000 kr.”

 

Líkbrennsla 41% allra útfara Hvernig jarðarfarir velur fólk helst í dag og er alltaf að aukast að fólk láti brenna sig?

,,Algengast er að útfarir fari fram frá kirkjum eða kapellum í borginni. Líkbrennsla hefur aukist mikið undanfarin ár og er nú um 41% allra útfara.”lín SigrúnJónsdóttir,ri

tfarastofuKirkjugarðanna

Og þið eruð að taka í notkun nýja heimasíðu - er hægt að fá allar upplýsingar þar?

,,Já, heimasíðan er mikilvæg upplýsingaveita. Með nýju heimasíðu útfararstofunnar geta ástvinir leitað allra helstu upplýsinga um undirbúninginn, hvernig útförin fer fram, hver kostnaðurinn er og hvað það þurfi að muna að gera. Fólk getur sent okkur fyrirspurnir og leitað eftir þjónustu rafrænt en við teljum mikilvægt að aðstandendur komi til okkar í samtal svo við getum veitt þeim persónulega þjónustu. Viðtalið kostar ekkert en hjálpar fólki að að taka ákvarðanir á erfiðum tíma.”

 

Þið bjóðið einnig upp á lögfræðiþjónustu - og skráningu hinsta vilja. Hvað er það og hver er tilgangurinn?

,,Í ljós hefur komið að margir vilja létta af ástvinum áhyggjum vegna eigin dauða og útfarar. Það er kallaður hinsti vilji þegar fólk skilur eftir sig yfirlit um hvað eigi að gera varðandi útför og hvernig útfararferlið skuli verða eða fara

fram. Fólk pantar viðtal hjá okkur til að skrá þennan hinsta vilja sinn. Starfsfólk útfararstofunnar fundar með fólki, annað hvort á skrifstofu útfararstofunnar eða á heimilum fólks,” segir Elína aðspurð um skráningu hinsta vilja og bætir við varðandi lögfræðiþjónustuna. ,,Hjá útfararstofunni er lögfræðingur, Katla Þorsteinsdóttir, að störfum og veitir þjónustu á sviði erfða- og fjölskylduréttar, allt frá ráðgjöf til skjalagerðar og umsýslu. Fyrsta viðtal er gjaldfrjálst

og á heimasíðunni má finna reiknivél, þar sem fólk getur sett inn sínar forsendur, eignir og fjölskyldustærð. Þar er hægt að sjá hver verður hlutur einstakra erfingja samkvæmt erfðalögum og sýndar leiðir til að gera breytingar þar á ef fólk óskar þess. Þetta er merkileg, mikilvæg og þörf nýung í starfi ÚK og að norræni fyrirmynd. Við höfum að markmiði að vera í hópi framsæknustu og öflugustu útfararstofa á Norðurlöndunum og eigum öflugar systurstofur í nágrannalöndum okkar sem hafa veitt okkur mikilvæga aðstoð við innleiðingu þeirra nýjunga sem við bjóðum nú upp á. Lögfræðiþjónusta útfararstofunnar er mikið og merkilegt framfaraskref.”

 

Eftir að ættingi eða ástvinur deyr - hversu langur tími líður þangað til er búið að jarða viðkomandi?

,,Í flestum tilvikum leita ástvinir til okkar strax eða fljótlega eftir andlát. Við sjáum gjarnan um að flytja hinn látna í líkhús og bjóðum ástvinum til okkar til viðtals til að undirbúa alla þætti útfarar. Tíminn frá andláti til útfarar er breytilegur en algengast er að það sé um 6-10 dagar. Sá tími getur verið styttri og hann getur verið lengri,” segir Elín að lokum.

 

Útfararstofa Kirkjugarðanna er með símanúmerið 551 1266 og netfangið: elin@utfor.is ef lesendur þurfa nánari upplýsingar.