Útgefið og birt efni

Hér fyrir neðan birtast greinar og viðtöl sem birst hafa um starfsemi Útfararstofunnar:

Í Tímariti félagsráðgjafa 2017, birtist viðtal við Emilíu Jónsdóttur, félagsráðgjafa sem hóf störf hjá Útfararstofu Kirkjugarðanna árið 2016:                                                                             

 

Félagsráðgjafar á nýjum starfsvettvangi

Þröstur Haraldsson

 

Menntunin og reynslan nýtast mér vel

Emilía Jónsdóttir

Emilía Jónsdóttir félagsráðgjafi hóf störf hjá Útfararstofu kirkjugarðanna í lok síðasta árs

– Hér starfa ég við að taka á móti að standendum þegar andlát hefur átt sér stað og aðstoða þá við að skipuleggja alla þætti útfarar, segir Emilía Jónsdóttir félagsráðgjafi þegar blaðamaður Tímarits félagsráðgjafa hittir hana að máli á skrifstofu Útfararstofu kirkjugarðanna í Fossvogi. – Það getur átt við andlát hérlendis eða erlendis, svo sem þegar þarf að flytja hinn látna heim frá útlöndum eða til útlanda. Þetta innifelur allt sem gera þarf, við bjóðum til samtals, þar sem við leitumst við að fá fram óskir og væntingar varðandi útförina. Í framhaldi samtalsins pöntum við kirkju og prest, útvegum tónlist og blóm og annað sem til þar

f, bætir hún við.

Emilía lærði félagsráðgjöf hér á landi og hóf störf strax að námi loknu hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar. Þar sinnti hún almennri félagslegri ráðgjöf í rúm tíu ár áður en hún flutti sig um set í Fossvoginn 1. desember síðastliðinn. Hún segir að það hafi blundað með henni nokkuð lengi að fara inn á þennan vettvang.

– Ég frétti af starfi hér fyrir tveimur árum en var þá á leið í fæðingarorlof. Svo ákvað ég að senda inn umsókn í fyrra og þá vildi svo til að það stóð til að ráða. Í millitíðinni skrifaði ég raunar meistaraprófsritgerð um félagsráðgjafa sem voru í óhefðbundnum störfum. Mig grunaði þó ekki fyrir ári að ég yrði fljótlega komin í spor viðfangsefna minna. En ég var greinilega farin að kynna mér þetta ómeðvitað.

Fjölþætt þjónusta

Hún er ekki í vafa um að menntun sín og reynsla sem félagsráðgjafi nýtist sér vel í þessu starfi.

– Ég finn hvað starfsreynslan og menntunin nýtist mér vel. Hér hitti ég þverskurð af þjóðfélaginu, fólk í alls konar stöðu. Sumir voru í erfiðleikum fyrir, jafnvel eftir ítrekuð áföll. Oft þarf að aðstoða fólk við að sækja um útfararstyrki og annað og leita eftir réttindum sem fólk hefur. Samtalstæknin nýtist ekki síður vel. Stundum eru aðstandendur mjög ósammála, geta jafnvel ekki hugsað sér að hittast, og þá er það mitt hlutverk að benda þeim á aðrar leiðir og hafa milligöngu. Sorgin tekur á sig ýmsar myndir og þar kemur reynsla félagsráðgjafans að góðum notum.

– Svo getur ýmislegt bæst við, til dæmis aðstoð við gerð erfðaskrár og að skrá hinsta vilja fólks þar sem fólk gefur fyrirmæli um eigin útför sem við varðveitum. Við veitum foreldrum sem missa börn sérstaka þjónustu, þeir fá ókeypis kistu og alla útfararþjónustuna og við erum með konur á okkar snærum sem búa til kærleiksteppi sem hægt er að setja í kisturnar.

– Auðvitað tekur það á að heyra harmagrát foreldra sem hafa misst börnin sín. Þá er gott að hafa gott sam starfs fólk að tala við. Að sama skapi er það gefandi að geta létt undir með fólki, til dæmis að útvega tónlistarfólk og blóm, þannig að ættingjarnir þurfi ekki að hafa þær áhyggjur. Nóg er nú samt. Við sinnum yfirleitt ekki neinni sorgarúrvinnslu, það taka prestarnir að sér. En við leiðbeinum fólki ef það vantar aðstoð, segir hún.

Þverfaglegt teymi

Hún segist vera mjög sátt við þetta starf og finnst hún vera á réttri hillu. – Ég hef líka heyrt að samstarfsfólkið er ánægt með að fá félagsráðgjafa hingað til þess að aðstoða við að sækja um hitt og þetta, ná í gögn og þess háttar. Hér starfar þverfaglegt teymi, lögfræðingur, guðfræðingur, félagsráðgjafi og fólk með alls konar menntun og reynslu sem hjálpast að. Menntun mín nýtist vel. Hér þarf ég að mæta fólki þar sem það er statt og finna lausnir og leiðir út úr öngstrætum, finna réttan söngvara eða aðra kirkju ef sú fyrsta er upptekin. Ég er meira í sambandi við presta og organista en stofnanir en vinnan er sú sama, að púsla hlutunum saman fyrir einstaklinginn, hvort sem það er endurhæfingaráætlun eða útför, þá þarf allt að smella saman, segir Emilía Jónsdóttir.