Ný þjónusta

Útfararstofa Kirkjugarðanna hefur vakið athygli undanfarið fyrir nýjar áherslur í starfi sínu.

  • Nýlega samdi stofan við einn stærsta kistuframleiðanda í Danmörku sem leggur mikla áherslu á gæði og umhverfisvæna vöru. Samningurinn gerir okkur kleyft að lækka verð umtalsvert á kistum og búnaði eða allt að 30% frá því sem áður var, sem sýnir neytendastefnu Útfararstofunnar.
  •  Hjá Útfararstofunni eru starfandi tveir lögfræðingar.  Veitt er þjónusta sem tengist andláti, s.s. skipti á dánarbúum og einnig er veitt þjónusta á sviði erfða- og fjölskylduréttar, allt frá ráðgjöf til skjalagerðar og umsýslu. Fyrsta viðtal er gjaldfrjálst og á heimasíðunni má finna reiknivél þar sem fólk getur sett inn sínar forsendur, eignir og fjölskyldustærð. Þar er hægt að sjá hver verður hlutur einstakra erfingja samkvæmt erfðalögum og sýndar leiðir til að gera breytingar þar á, ef þess er óskað. 
  •  Einnig er boðið upp á aðstoð við uppsetningu minningarsíðu um hinn látna. Þar má finna upplýsingar um útförina, hvar hún fer fram, möguleika á að greiða minningargjafir, þar verður einnig hægt að birta myndir og minningarorð og unnt verður að deila þessari minningarsíðu á samfélagsmiðlunum.
  •  Enn ein nýjungin er skráning hinsta vilja en sú þjónusta hentar þeim vel sem vilja létta áhyggjum af ástvinum vegna eigin andláts og útfarar. „Þá skilur fólk eftir sig yfirlit um hvað eigi að gera varðandi útförina og hvernig útfararferlið fari fram. Viðkomandi aðili pantar viðtal hjá okkur til að skrá þennan hinsta vilja sinn.

Við höfum að markmiði að vera í hópi framsæknustu og öflugustu útfararstofa á Norðurlöndunum og eigum öflugar systurstofur í nágrannalöndum okkar sem hafa veitt okkur mikilvæga aðstoð við innleiðingu þeirra nýjunga sem við bjóðum nú upp á. 

Okkar þjónusta þarf að þróast í takt við tímann og sífellt fleiri kjósa að nýta netið í þeim tilgangi. Við munum eftir sem áður bjóða persónulega þjónustu  og við leggjum ríka áherslu á gæði þeirrar þjónustu með fagmenntuðu og reynslumiklu starfsfólki. ​