Útfararsiðir trúarbragða

Mikil breyting hefur orðið á Íslensku samfélagi á síðustu áratugum. Um síðustu áramót (2020/2021) bjó hér fólk með skráð ríkisfang í amk 152 löndum, samtals um 19% þjóðarinnar. Þá eru ótaldir þeir innflytjendur sem hafa öðlast íslenskt ríkisfang en sjá má hér á síðunni (Hvaðan koma þeir sem búa á Íslandi) fjölda þeirra sem fæddir eru í öðrum löndum. Með aðfluttu fólki hafa borist nýjir trúarsiðir og venjur sem oft hafa að geyma öðruvísi reglur og siði varðandi útfarir en hefðbundnir hafa verið á Íslandi. Hjá Útfararstofu Kirjugarðanna er borin virðing fyrir ólíkum trúarbrögðum og reynt eftir fremsta megni að fylgja þeim trúarsiðum sem hinn látni hefur helgað sér. Þann 1. maí eru á Íslandi skráð trú- og lífsskoðunarfélög 51 talsins.[1]

Til fróðleiks er hér stutt yfirferð yfir helstu trúarbrögð heims og hvernig siðir varðandi andlát og útför geta verið ólíkir á milli þeirra. Ásamt öðrum heimildum og er hér stuðst er við bókina Trúarbrögð og útfararsiðir, uppruni og inntak árið 2008 sem Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæma gaf út árið 2008 en bókin er íslensk þýðing bókarinnar Religioner, livssyn og gravferd eftir Gunnar Neegaard. Í yfirferð okkar, sem hægt er að velja hér til vinstri á síðunni, er stiklað á stóru og helstu tölur uppfærðar. 

Hafa skal í huga við lestur þessarar samantektar að hún er aðeins almennt yfirlit og sett fram í þeim tilgangi að efla áhuga lesandans á því að kynna sér efnið frekar. Í flestum trúarbrögðum eru mörg afbrigði af útfararsiðum, t.d. eftir þjóðernum og er ekki farið í slíkt hér.

Evangelísk lútherska kirkjan

Íslenska þjóðkirkjan er evangelísk-lúthersk kirkja og henni tilheyra 230.741 í maí árið 2020. Meginþorri allra útfara á Íslandi fer því fram samkvæmt helgisiðum íslensku þjóðkirkjunnar. 

Útförin er guðsþjónusta þar sem aðstandendur í samfélagi hins kristna safnaðar kveðja hinn látna og fela hann miskunn Guðs á hendur. Útförin tjáir sorg og söknuð þeirra sem eftir lifa og er játning hinnar lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.

Kirkjan játar og trúir að Jesús Kristur hafi með dauða sínum borið synd og dauða jarðarbarna og með upprisu sinni sigrað dauðann og opnað veginn til eilífs lífs. Útför tjáir í senn alvöru dauðans og sorgarinnar og birtu upprisuvonarinnar. Hún er einnig áminning til þeirra sem eftir lifa um að gefa gaum að dýrmæti lífsins og fallvaltleik. Í lífi sérhvers manns og í fagnaðarerindi krossins má sjá hve dauði og líf, ljós og myrkur, takast á. Þetta setur svipmót sitt á útförina en sorgin og dauðinn fá nýjan svip þegar það er borið uppi af ómi upprisunnar og hins himneska lofsöngs.

Moldin sem ausið er á kistuna er tákn þess að við erum af moldu runnin og til moldar stefnt, eins og allt sem lifir, en er ætlað að rísa upp, eins og hveitikornið. Signt er yfir kistu sem fyrirbæn og til áminningar þess að hinn krossfesti og upprisni frelsari hefur sigrað dauðann fyrir oss, náð hans og friður umvefur okkur í lífi og í dauða.

Athöfnin

  1. Útför felur í sér ritningarlestur, vitnisburð um fagnaðarerindi upprisunnar, fyrirbæn og moldun, þar sem líkkistan er ausin moldu þrisvar með þeim orðum sem Handbók kirkjunnar mælir fyrir um við þá athöfn.
  2. Varðandi útfararathöfn skal leitast við að uppfylla óskir hins látna og/eða aðstandenda, enda séu þær í samræmi við reglur og venjur þjóðkirkjunnar.
  3. 3. Í kirkju skal kista snúa þannig að ásjóna hins látna horfi við altari.
  4. Prestur sem annast útförina ber ábyrgð á því að tónlist og annað sem fram fer við athöfnina samrýmist tilefninu og helgi stundarinnar.
  5. Heimilt er að molda í kirkju, en molda skal við gröf þegar þess er kostur.
  6. Óheimilt er að nota annað en mold við moldun (svo sem blóm).
  7. Hringja má klukku þegar lík er borið til kirkju. Hringt skal klukku fyrir útför og eins þegar borið er út úr kirkju. Hringt skal klukku þegar lík er borið til grafar í kirkjugarði verði því viðkomið. 
  8. Prestur annast útför. Prestur sem ekki er í þjónustu getur annast útför á ábyrgð sóknarprests sem sér til þess að athöfnin sé skráð í kirkjubækur.
  9. Kistulagningu og húskveðju getur djákni eða leikmaður annast.
  10. Að jafnaði skal prestur eða djákni annast jarðsetningu duftkers. Ætíð ber að tilkynna jarðsetninguna viðkomandi sóknarpresti sem sér um að skráð sé í legstaðaskrá.

Ásatrú

1. maí  2021 voru félagar 5.118 en árið 2015 voru eru þeir 2.675.[1]

Trúariðkun Ásatrúarmanna er ekki í föstum skorðum og sérhver athöfn tekur mið af óskum einstaklingsins.

Í andslátstilkynningu er sólkrossinn oft notaður sem tákn um trú viðkomandi. Kistan er líka oft með sólkrossi eða öðrum viðurkenndum heiðnum táknum, eða er án trúartákna. Við athöfnina er algengt að kveðist sé á.

Samkvæmt lögum um trúfélög og lögum og reglum Ásatrúarfélagsins er útför mótuð og framkvæmd af allsherjargoða eða goða með vígsluréttindi, í samráði við aðstandendur. Gjarnan taka fleiri goðar þátt í athöfninni. Staðsetning athafnar er að vali aðstandenda hvar á landinu sem vera skal í samráði við goðann og útfararþjónustuna. Hafa heiðnar útfarir verið nokkuð mismunandi og mótast af persónunni sem verið er að kveðja hvert sinn. Ávalt er kveðið úr Eddukvæðum auk annars rímnakveðskapar, hljómlistar og ljóðalesturs. Einnig er eldur alltaf til staðar og sígrænar jurtir. Á kistuna eru lagðir munir sem hinum látna voru kærir, honum óskað fararheilla til þeirra heima er við á og að goð og gyðjur og góðar vættir styrki þá sem eftir standa. Viðstaddir ganga sólarsinnis kringum kistuna og kveðja hinn látna hver á sinn hátt.[2]

Síðan 1999 hefur Ásatrúarfélagið átt sinn eigin grafreit í Gufuneskirkjugarði en þar eru nokkrir heiðnir menn jarðsettir.

Þegar útfarir Ásatrúarmanna hafa farið fram í kapellunni og kirkjunni í Fossvogi er tjaldað yfir krossa og önnur kristin trúartákn en í nánustu framtíð verða útfarir gerðar frá hofi Ásatrúarmanna í Reykjavík.

Eftir athöfnina þykir erfidrykkja mikilvæg. Þar er drukkin heill hins látna og gjarnan lögð áhersla á góða og gleðilega í lífsferli hans eða hennar.

Búddismi

Búddistar á Íslandi eru 1.115 [1] og eru flestir þeirra ættaðir frá Thaílandi. Fyrstu búddasamtökin á Íslandi, SGI, voru stofnuð árið 1980 og voru flestir félaganna íslenskir.

Í augum búddista er lífið samfella. Dauðinn markar ekki endalok lífsins heldur aðeins þáttaskil. Dánarstundin er þó engu að síður álitin afar þungvæg og alvarleg stund.

Ef hinn deyjandi liggur á spítala/stofnun er brýnt að hann hafi tök á því að kveðja sína nánustu í andrúmi kyrrðar og friðar. Að jafnaði er farið fram á að hinn dauðvona fái að vera í einrúmi. Óæskilegt er jafnan talið að hann taki lyf sem hafa slævandi verkun, því mikilvægt er að hann geti kvatt með hugarró og skýrleika í hugsun.

SGI búddistum er mikilvægt að aðstandendur og nánustu vinir séu viðstaddir þegar búddisti er að skila við og kyrji lögmál lífsins, Nam-mjóhórenge-kjó, upphátt yfir þeim sem er að kveðja.

Margir vilja að munkur eða annar fulltrúi trúfélagsins sé tilkallaður. Honum er ætlað að blessa hinn dauðvona og lesa upp úr helgum textum (sutra).

Sumir fara svo fram á að kveikt sé á kertum og reykelsi í herberginu, að blóm séu til staðar svo og mynd af Búdda. Búddamyndin á að minna hinn deyjandi á meistarann mikla, orð hans og leiðsögn, svo hann megi sækja styrk og innblástur til að afbera lokaþrautirnar.

Eftir andlát er þess óskað að munkur sé tilvkaddur. Engar sérstakar reglur gilda um það hvernig skuli þvo og búa um líkið en sumir lærifeður eru þeirrar skoðunar að ættingjar skuli taka það að sér til að sýna umhyggju og virðingu. Stundum óska ættingjar eftir því að kistan sé flutt á heimili hins látna svo halda megi kveðjustund þar.

Útför skal fara fram svo fljótt sem unnt er. Vajrayana-búddistar vilja þó fara hægar í sakirnar og láta nokkurn tíma líða. SGI búddistar leggja áherslu á að aðstandendur fái nægan tíma strax eftir andlát til að kveðja hinn látna og kyrja upphátt yfir honum. Þessi ósk helgast af þeirri skoðun að það taki hinn látna nokkurn tíma að kveðja jarðarlíkama að fullu; kyrjunin er talin draga fram búddaeðli hins látna og hjálpa honum að losa tökin og þannig halda áfram í næstu tilvist.

Engar trúarreglur banna krufningu búddista, en sumir eru henni mótfallnir og því betra ef hinn látni hefur látið vilja sinn í ljós. Þar sem búddistum er almennt náungakærleikur hugfólginn má búast við að þeir verði við beiðni um líffæragjöf.

Heimilt er að smyrja lík. Þeim sem það er falið skal vera af sama kyni og hinn látni/látna.

Lík munka og nunna skal klætt af sama kyni og hinn látni/látna. Þau eru klædd í kufla sinnar reglu, að Vajrayana-munum undanskildum, en þeir eru klæddir í gulan kufl. Leikmenn eru sveipaðir í hvít klæði.

Engar sérstakar reglur gilda um kistulagningu en kista skal vera án trúartákna (enginn kross).

Andlátstilkynning er hefðbundin en nota má „hjól viskunnar“ (dharma chakra) sem tákn. SGI búddistar nota Lótusblómið eða SGI- merkið við birtingu andlátsfréttar.

Útför fer fram í kapellu. Við útförina þykja miklar blómaskreytingar veigamikill þáttur og oft er óskað eftir sérstöku borði undir ljósmynd af hinum látna; einnig hljómflutningstækjum.

Sumir búddistar kjósa jarðarför, aðrir bálför. Helgitextar búddismans gefa engin fyrirmæli um útfararhátt og siðirnir eru afar breytilegir eftir löndum.

Munkur leiðir jafnan athöfnina en fyrir kemur að nunna annist hana. Athöfnin er fólgin í táknrænum gjörðum, svo sem austri með vígðu vatni, sútra-upplestri, játningu, lofgjörð og bæn. Upplesturinn má fara fram á hvaða máli sem er en oft er tungumálið palí valið en það er eitt mikilvægasta tungumál búddismans.

Skreyting kapellunnar getur verð með ýmsu móti. Ljós, blóm og reykelsi skipa ávallt drjúgan sess.

Við bálför fara aðstandendur stundum fram á að fá að standa við ofninn. Við jarðarför er athöfnin við gröfina að jafnaði einföld og stutt. Ekki er óþekkt að eigur hins látna séu brenndar og að kveikt sé á reykkelsi við gröfina. Stundum óska aðstandendur eftir því að taka þátt í að loka gröfinni.

Hefð er fyrir því að halda minningarstund sem ætlað er að votta hinum látna virðingu. Minningarstundin fer iðulega fram þegar vika er liðin frá andláti. Að svo búnu eru stundum haldnar minningarstundir að 3 mánuðum liðnum og aftur að ári liðinu.

Aðstandendur eru einnig hvattir til að heiðra minningu hins látna með fjárframlögum til nauðstaddra eða með því að leggja góðgerðarstarfsemi lið.

Notast er við almennan grafreit og skal höfuðið snúa í vestur.

Gyðingdómur

Engin gyðingleg trúfélög eru skráð á Íslandi, enda fáir Gyðingar sem búa hér á landi.

Bálför er bönnuð í gyðingdómi og því er jarðarför í kistu hinn hefðbundni háttur. Í Talmúd er bálför lýst sem heiðnum sið og bann er lagt við því í gyðingdómi að aðstoða við bálför Gyðings. Útfarir eru hvorki gerðar á sabbatsdegi né á helgidögum Gyðinga.

Dauðvona Gyðingur fer með trúarsetninguna (shemah) og ef inn sjúki er ekki fær um það fer náinn aðstandandi með hana fyrir hans hönd.

Búið er um lík af útfararstofunni í kapellunni (tahara). Um er að ræða hreinsun sem framkvæmd er eftir ákveðnum helgisiðum áður en jarðsett er. Sá sem býr um líkið verður að vera af sama kyni og hinn látni.

Krufning er almennt bönnuð. Hingað til hafa Gyðingar verið þeirrar skoðunar að slík aðgerð og rannsókn á líki sé ótæk og sýni hinum látna óvirðingu og er þess vegna ekki leyfð. Litið er svo á að við krufningu sé líkið gert að ópersónulegi viðfangi og það samrýmist ekki þeirri friðhelgi sem líkami hins látna eigi rétt á. Þrátt fyrir þessa afstöðu hafa trúarleiðtogar Gyðinga þó viðurkennt að virðing fyrir hinum látna þurfi að víkja fyrir hagsmunum sem eru meiri: Að bjarga og viðhalda lífi annarra. Gyðingar leggjast eindregið gegn því að krufningar séu stundaðar sem hver önnur vinnuregla og því þarf í hverju tilviki að leita samþykkis með hliðsjón af því að almment sé krufning bönnuð.

Útfararstofa annast líkklæðningu. Líkið er klætt í einfalda, hvíta skikkju (tachrichim). Poka með mold frá Ísrael er komið fyrir undir höfðalagi hins látna eða moldinni sáldrað í kistuna. Karlmenn eru klæddir í bænasjalið (talit).

Þar sem litið er svo á að allir séu jafnir fyrir dauðanum er gert ráð fyrir að kistan sé látlaus. Hún er smíðuð úr hefluðum, ómáluðum borðum og á að vera án útflúrs. Trénaglar eru notaðir í stað járnnagla og tengist sú hefð trúnni á upprisu.

Útförin fer fram eins fljótt og verða má eftir andlát og er hinn látni sóttur af útfararstofunni sama dag og hann deyr. Stundum er líkvaka á heimili hins látna, en sá siður er þó fátíður núorðið. Aðstandendur kveikja á kerti og setja það við höfðalag hins látna, lesa upp úr bók Sálmanna og vaka yfir hinum látna. Í kapellunni annast útfararstofan líkvökuna uns útför er gerð.

Í andslátstilkynningu er notast við Davíðsstjörnuna sem tákn.

Blóm og tónlist eru ekki leyfð við útförina og er ástæðan sú að mikilvægt er talið að einfaldleiki og jöfnuður ráði ríkjum. Aðstandendur eru þess í stað hvattir til að heiðra minningu hins látna með framlagi til góðgerðarstarfsemi í þágu nauðstaddra eða fákætra Gyðinga, til gróðursetningar trjáa í Ísrael o.fl.

Útförin er í tveimur liðum, annars vegar í kappellunni og hins vegar við gröfina.

Syrgjendur bera allir höfuðfat og eru dökkklæddir. Gilda þær reglur einnig um þá sem ekki eru gyðingatrúar. Þegar kistan hefur verið látin síga ofan í gröfina kasta karlkyns syrgjendur þremur moldarrekum á kistuna á meðan konurnar fara með bæn í hljóði. Rekur verða að vera tiltækar á staðnum því þegar er hafist handa við að loka gröfinni. Að minnsta kosti einn úr líkfylgdinni verður að vera við gröfina þar til henni hefur verið lokað.

Nánustu aðstandendur taka þátt í Kadisch- bæninni sem er einn vegamesti liðurinn í útförinni. Að svo búnu þvo syrgjendur hendur sínar áður en grafreiturinn er yfirgefinn.

Hindúismi

Nokkrir hindúismar búa á Íslandi og eru það helst innflytjendur frá Indlandi og öðrum löndum í s-Asíu þar sem hindúatrú er algengt. Ekkert formlegt trúfélag hindúa er þó starfrækt á landinu. [1]

Hindúar brenna látna ástvini sína sem eru eldri en 10 ára. Að baki þeim sið býr sú hugsun að sálin, atman, yfirgefi líkamann hraðar við brennslu en jörðun í kistu. Útfararstofur koma með venjulegum hætti við framkvæmd athafnar.

Almennt er þess óskað að hinn dauðvona fái að vera í einrúmi. Auk innsta hrings fjölskyldunnar er algengt að ættingjar og nánir vinir séu tilkallaðir þegar dánarstundin nálgast. Þessi venja á sér trúarlegar forsendur og gefur jafnframt til kynna umhyggju samfélagsins fyrir einstaklingnum.

Auk blóma koma aðstandendur oft með reykelsi og trúarleg tákn að skjúkrabeði, t.d. guðsmyndir, stundum peninga og föt svo hinn dauðvona geti snert þær gjafir áður en þær eru gefnar bágstöddum.

Enginn fastur helgisiður er viðhafður þegar kemur að því að kveðja hinn látna, en textar úr Bhagavad Gita eða Raayana eru stundum lesnir upp.

Ræða ber við aðstandendur hvernig þvo og búa skuli um líkið. Alla jafna er óskað eftir því að starfsfólk spítalans taki það að sér. Sá sem það gerir þarf að vera af sama kyni og hinn látni. Meðan búið er um líkið á hinn látni að snúa í austur – í átt að sólarupprás, og fæturnir í átt að suðri. Sé það mögulegt, les elsti sonur eða bróðir hins látna upp úr Vedaritunum.

Hindúar eru að jafnaði andsnúnir krufningu. Sé samþykki fyrir henni gefið eða ef réttarkrufning reynist nauðsynleg er brýnt að líffæri séu lögð aftur á sinn stað í líkamann. Er það talið mikilvægt til að tryggja hinum látna frið í komandi lífum.

Yfirleitt kjósa aðstandendur sjálfir að klæða líkið. Sá sem það gerir er af sama kyni og hinn látni/látna. Sveipa ber líkið í klæði úr hvítri bómull. Hafi hin látna verið gift og maður hennar er enn á lífi skal hún klædd brúðarkjól sínum, þ.e. í sarí í fjölbreyttum litum (ekki svartan og hvítan). Á bómullarklæðið sem hinn látni er sveipaður í skal rita Om eða He Ram en orðið Ram merkir Guð á ýmsum indverskum nútímatungum.

Engar sérstakar reglur gilda um kistulagningu og hefðbundarn kistur eru notaðar. Til þess er þó mælst að kistan sé án trúartákna (enginn kross).

Skreyta ber kistuna með bómullarklæði þar sem áritað er He Ram eða það handskrifað með dufti blönduðu vatni. Kistan er skreytt með krönsum, blómum og grænum laufum.

Brenna skal líkið eins fljótt og unnt er, helst innan 24 klukkustunda. Aðstandendur óska jafnan eftir því að vera á vettvangi á meðan á brennslu stendur. Athöfnin fylgir ekki föstum helgisiðum þó svo að lofgjörð og upplestur séu tíðir liðir. Reykelsi eru notuð í miklum mæli.

Að bálför lokinni er minningarathöfn haldin í bálstofunni, hindúamusteri eða á heimili hins látna/ nákomins ættingja.

Á altarið eru iðulega settar avatarmyndir en það eru myndir af guðum sem stíga niður til mannanna og birtast í jarðneskri mynd og auk þess eru önnur trúartákn lögð á altarið.

Öskunni ber að dreifa í rennandi vatn (t.d. í á eða fljót) að hindúasið. Annar valkostur er að senda duftkerið til Indlands og láta þar strá öskunni í hið helga fljót Indverja, Ganges (eða aðrar helgar þverár fljótsins). Ef farin er sú leið að jarðsetja kerið skal það gert í minningarlundi með einfaldri athöfn. Syrgjendur skulu vera venjulega til fara og ekki hafa sig sérstaklega til. Ekki á að klæðast svörtu.

Eftir samverustundina í minningarlundinum fer fólk til síns heima, baðar sig og hefur fataskipti. Síðar um daginn koma aðstandendur og vinafólk iðulega saman á heimili hins látna. Sorgartímabilið er 13 dagar og markar veglegur kvöldverður lok þess. Fjölskylduviðburðir á borð við brúkaup eru ekki haldnir fyrr en að sex mánuðum liðnum.

Ósk Hindúa er að öskunni sé sáldrað í rennandi vatn og þar af leiðandi er ekki um hefðbundinn grafreit að ræða.

Íslam

Íslam er önnur fjölmennustu trúarbrögð heims með um 1,3 milljarða fylgismanna. Á Íslandi voru 875 maður skráður múslimi árið 2015 en 1. maí 2021 eru þeir 1.447 í þremur trúfélögum, Félag múslima á Íslandi , Menningasetur múslima á Íslandi og Stofnun múslima á Íslandi.[1]

Íslam er arabískt orð sem táknar undirgefni  og  frið, þ.e. undirgefni við Allah, Guð múslima og þann frið sem Allah veitir.Múslimi er sá sem beygir sig undir vilja Allah og hlýðir boðorðum hans. Í augum múslima er íslam ekki eingöngu trúarbrögð heldur líka lögmál (sharia) sem hlíta skal í einu og öllu.

Múslimar óska þess yfirleitt að fá að deyja heima hjá sér. Sumir vilja fá að deyja í heimalandi sínu, sé þess nokkur kostur. Sé hinn dauðvona á sjúkrahúsi þykir mjög æskilegt að hann fái að vera í einrúmi. Trúarleg tákn skulu ekki vera í herberginu. Algengt er að nánasta fjölskylda, ættingjar og nánir vinir séu nærstödd, enda mikil áhersla lögð á að hinn sjúki þjáist ekki og deyi í einsemd. Skylda þessi á sér trúarlegar forsendur og tjáir jafnframt umhyggju samfélagsins fyrir einstaklingnum. Margir óska þess að ímam eða annar fulltrúi trúgreinar viðkomandi vitji þeirra. Slík vitjun gefur færi á samtölum, bæn, sálusorg og upplestri úr Kóraninum.

Íslam kennir að manneskja falli frá þegar „Guði þóknast“ og að hún verði eftir dauðann að standa skil á lífi sínu. Brýnt er að hinn dauðvona fái að fara með trúarjátninguna: „Það er enginn annar Guð en Allah og Múhameð er spámaður hans“. Trúarjátninguna mega aðrir líka flytja fyrir hans hönd. Jafnmikilvæg er bænin til Guðs um fyrirgefningu, miskunn og samúð.

Íslam leggur áherslu á að hinn sjúki gangi frá málum gagnvart sínum nánustu. Það er m.a. fólgið í því að aðstoða skal hinn sjúka við gerð erfðaskrár, hafi það ekki verið frágengið.

Líknardráp eru stranglega bönnuð í íslam.

Ekki er gert ráð fyrir því að múslimi tjái sorg sína á háværan hátt. Ástæðan er sú að litið er á sterk tilfinningaköst sem merki um bilandi trú eða aðra trúarlega bresti. Skoðanir á þessu eru þó mjög mismunandi eftir svæðum.

Við andlát eru hinum látna veittar nábjargir og andlitinu beint í átt að Mekka. Að svo búnu er farið með bæn fyrir hinum látna og breitt yfir líkið.

Í trúarlegu samhengi er krafan um hreinleika áberandi en í íslam er lagt sérlega mikið upp úr hreinleika. Andlátsathöfnin er umfangsmikil og hefur mikið vægi. Líkið er þvegið strax eftir andlát og er það algjört skilyrði meðal múslima. Yfirleitt tekur nánasta fjölskylda hins látna að sér að þvo og búa um líkið. En ímam getur líka annast athöfnina eða annar aðili sem fjölskyldan treystir og er kunnugur íslamskri hefð. Reglan er sú að lík af manni skal þvegið af múslimskum mönnum eða eiginkonu hans og lík af konu af múslímskum konum eða eiginmanni hennar.

Jafnan tekur hálfan dag að þvo og klæða líkið.  Æskilegt þykir að kveikja á reykelsi áður en líkþvottur hefst. Sé vatn ekki tiltæknt eða smithætta er fyrir hendi vegna t.d. rotnunar er mælt með nákvæmum þvotti sem felst t.d. í notkun sands eða moldar. Kynfæri eru hulin öðrum en maka. Þau eru þvegin fyrst, svo tekur við wudu ‚ sami helgisiðaþvottur og viðhafður er fyrir bænagjörð. Eftir að höfðuðið er þvegið skal allur líkaminn þveginn (hægri hlið fyrst). Því næst er allur líkaminn þveginn þrisvar. Sé hann ekki hreinn eftir það skal hann þveginn í oddatöluskipti (5,7 osfrv). Í síðasta skiptið er notuð ilmolía, t.d. kamfer, í vatnið. Engu vatni er sparað til að hreinsa líkamann. Bera skal ilmvatn á þá líkamshluta sem snerta flötinn þegar lagst er á bæn (enni, nef, lófa, hné og fætur

Múslimar eru ekki mótfallnir krufningu þegar hennar gerist þörf en leita þarf samþykkis aðstandenda.

Klæða ber líkið í klæði úr hvítri bómull (takfin). Ekki skal nota silki handa karlmanni.Efnið á helst að vera án sauma en sé það ekki fyrir hendi má notast við lak. Karlmenn eru klæddir í 3 lög en konur í 5. Hafi hinn látni farið í pílagrímsförina til Mekka skal hann að jafnaði sveipaður pílagrímsklæði sínu sem er 2 lög (aðeins karlmenn).

Líkið er lagt á hægri hlið í kistuna með handleggina meðfram síðum. Kistan er ekki skreytt og á að vera eins einföld og framast er kostur til marks um að allir séu jafnir fyrir dauðanum. Kistan er ekki skreytt með blómum eða krönsum en þó eru frávik frá þessu í sumum löndum.

Tónlist og söngur eru ekki leyfð við útförina.

Farið er með útfararbænina í moskunni, á heimilinu eða við gröfina. Fulltrúi aðstandenda leiðir stundum útfararbænina en iðulega er sú athöfn falin ímam.

Forsendur slíkarar bænar eru þær að hinn látni sé múslimi og að þvottur hafi farið fram eftir settum helgisiðum. Jafnframt er sú krafa gerð að athöfnin fari fram eftir ýmsum öðrum reglum, svo sem að það fólk sem er á bæn myndi minnst þrjár raðir og að minnst tvær persónur sé í hverri röð. Þar til grundvallar liggja eftirfarandi orð spámannsins: „Ef múslimi deyr og þrjár raðir múslima biðja fyrir honum fær hann inngögnu í Paradís“.

Bálför er óheimil.

Jarða ber hinn látna sem fyrst, helst 1 – 2 dögum eftir andlát. Í íslömskum löndum eru lík yfirleitt jörðuð án kistu, en víða annars staðar í heiminum er jarðað með kistu. Ræður loftslag á hverjum stað nokkru um. Á Íslandi er jarðað með kistu.

Kistan er borin frá þeim stað, þar sem útfararbænin var flutt, að grafreitnum. Litið er á það sem trúarlega skyldu að bera kistuna rétt eins og að þvo hinn látna. Karlmenn bera kistuna á herðum sér og skal hún borin með reisn. Ef um talsverða vegalengd er að ræða, er algengt að skipt sé um burðarmenn.

Áður en kistan er borin fara viðstaddir með bæn og eru allir standandi, gagnstætt því sem tíðkast við bænahald almennt, og snúa í átt að Mekka.

Alla jafna fylgja aðeins karlmenn hinum látna til grafar og er sú venja einnig viðhöfð þegar kona er borin til grafar. Að konur skuli ekki fylga látnum ástvinum til grafar er rökstutt með því að útför sé mikið tilfinningalegt álag, konur hafi mikilvægum skyldum að gegna á heimilinu s.s. að taka á móti þeim sem samhryggjast, elda, sinna börnum og öðrum. Þá sé konum hættara við að láta hryggð sína í ljós með þeim hætti sem ekki samrýmist venjum íslam, t.d. með háværum grát og ópum. Ákveði kona engu að síður að vera viðstödd, skal hún hlíta reglum íslams um viðeigandi klæðaburð og hegðun.

Grafirnar skulu snúa í átt að Mekka, þ.e.a.s. að andlit hins látna skal vísa í átt að Mekka sem er þungamiðja íslams og helgasti staður múslima. Ímam eða annar múslimi sem verkinu er vaxinn stýrir athöfninni við grafarbakkann og fylgir hann ákveðnum venjum við þá athöfn.

Greftrun á tvöföldu dýpi í jörðu er ekki heimil.

Loka skal kistunni eins fljótt og auðið er og algengt er að aðstandendur vilji framkvæma það sjálfir.

Flestar trúarstefnur íslams fylgja í meginatriðum því athafnamynstri sem hér hefur verið lýst en hafa ber í huga að múslimar eiga sér mjög mismunandi menningarlegan bakgrunn og eru upprunnir í hinum ýmsu þjóðríkjum sem spanna gríðarstórt landssvæði og siðvenjur því afar breytilegar.

Múslimar vitja fjölskyldu hins látna strax eftir að frétt af andláti berst. Einnig koma vinir og vandamenn saman að útför lokinni til að votta hinum syrgjandi samúð og veita stuðning. Vettvangur slíkra vitjana getur verið heimili hins látna, skyldmenna eða moskan. Lesið er uppúr Kóraninum og Guð beðinn um að fyrirgefa hinum látna og sýna honum miskunn. Fólk leggur sig fram um að samhryggjast þeim sem eiga um sárt að binda, iðulega með þessum orðum: „Það sem Guð gaf og það sem Guð tók er hans og hann ákvað tímasetningu þess alls“.

Mælst er til þess að skyldmenni, nágrannar og vinir létti undir með nánustu aðstandendum með því að elda eða koma með mat og reka nauðsynleg erindi fyrir aðstandendur. Séu lítil börn í fjölskyldunni er ekki gert ráð fyrir að syrgjendur reiði fram mat handa þeim sem koma til að samhryggjast. Það er í verkahring annarra.

Ef boðið er til erfidrykkju í moskunni, borða konur og karlar í sitt hvoru rýminu.

Sorgartímabilið er að hámarki 3 dagar við missi náins skyldmennis. Skv. Bukhari er bannað (harám) að syrgja lengur. Fyrirskipaður biðtími (‚idda) íslamskra laga við eiginmannsmissi eru 4 mánuðir og 10 dagar. Með þessu fyrirkomulagi kemur í ljós hvort konan er barnshafandi og tryggir þannig, ef því er að skipta, erfðarétt barnsins eftir föður sinn. Ekkjunni er óheimilt að giftast aftur á þessu tímabili sem er nokkur konar festar. Notkun ilmvatns, farða, skartgripa, litríkra klæða og andlitsslæðu er jafnframt bönnuð á þessu tímabili. Reglurnar eiga einnig við um konu sem ekki er múslimi.

Hér á landi hafa múslimar sérgrafreiti í Gufuneskirkjugarði. Grafreiturinn þarf að vera auðkenndur og afmarkaður með skýrum hætti frá grafreitum annarra trúfélaga á svæðiu. Einnig verður að merkja sjálfa gröfina þannig að ekki sé traðkað á henni fyrir slysni. Að jafnaði er ekki leyfilegt að færa gröf múslima eða eyða henni.

Höfuðmáli skiptir að ekki sé varið miklu fé í útförina og leiðið. Þess í stað skal nota féð til hjálpar fátækum og þurfandi og biðja Guð um að launa hinum látna þau óbeinu góðverk. Í tímans rás er þó merking leiða orðin algengari. Núorðið er notast við fábrotna, litla legsteina með hefðbundnum áletrunum. Stundum eru ljós látin loga við leiðið en með því er verið að bregða út af íslamskri trúarhefð og ber það vott um aðlögun að vestrænum hefðum. Skreytingar á leiðum múslima eru einnig orðnar algengari.

Súnni-múslimar leggja áherslu á að gröfin skuli aðeins rúma eina persónu en slík tilmæli eru lögð til hliðar ef styrjaldir eða farsóttir berast út.

Búið er um andvana börn, svo og andvana fædd, á sama hátt og fullorðinna, lík þeirra eru þvegin og greftruð með sama fyrirkomulagi. Ef barnið er yngra en 8 ára gildir einu hvort kona eða maður búi um það og þvoi.

Rétttrúnaðarkirkjan

Árið 2015 voru 883 skráðir í tvö trúfélög rétttrúnaðarkirkju á Íslandi. Þann 1 maí 2021 eru 1.155 skráði í tvö trúfélög, rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og Serbnesku rétttrúnaðarkirkjuna.

Fyrir andlát er lögð áhersla á að prestur sé tilkvaddur fyrirskriftir syndanna þegar alvarleg veikindi ber að höndum eða yfirvofandi er dauðsfall. Gefa skal hinum sjúka kost á að ræða við prest í einrúmi og e.t.v. skrifta, óski sjúklingur þess. Þegar heilbrigðisstarfsfólk hefur samband við prest, skal það tilgreina hvað tungumál sjúklingurinn talar.

Herbergið skal vera hreint þegar prestinn ber að garði. Koma skal fyrir borði með hreinum dúki, sem gegnir hlutverki altaris, og á borðið eru sett 2 kerti og Biblía. Presturinn eða aðstandendur sjúklings mega koma með krossa og helgimyndir (íkon).

Í framhaldi af samtali prests og sjúklings er fjölskylda hins síðarnefnda iðulega viðstödd þegar hann meðtekur sakramenti heilagrar kvöldmáltíðar og smurningar.

Smurning er ekki eingöngu veitt dauðvona fólki – enda er litið á hana sem læknandi kraft Guðs – og því getur sami sjúklingur meðtekið þetta sakramenti oftar en einu sinni.

Í beinu framhaldi af andláti fer einn viðstaddra með stutta bæn. Þá er líka venja að lesa sálma við dánarbeðið. Það ber að gera presti eða forstöðumanni safnaðarins umsvifalaust viðvart þegar andlát ber að höndum.

Sé presturinn viðstaddur heldur hann stutta bænastund (panihida) við dánarbeðið þar sem hann biður um fyrirgefningu syndanna og frelsi til handa hinum nýlátna.

Hendur hins nýlátna eru lagðar á bringuna með tilliti til þess að þannig er líkinu venjulega fyrir komið við kistulagningu.

Engar athafnir fara fram.

Rétttrúnaðarkirkjan er ekki hlynnt krufningu og forðast ber hana sé þess nokkur kostur.

Ef flytja þarf lík á milli landa eða svæða er leyfilegt að smyrja það.

Búið er um líkið á hefðbundinn hátt, það þvegið og snyrt. Oft er þetta í umsjá útfararstofu. Líkið er klætt í ný föt og nýja skó. Á ennið er festur borði með áletruninni: „Heilagi Guð, Heilagi almáttugi, Heilagi ódauðlegi Guð, miskunna okkur.“

Engar trúarathafnir tengjast reifun líks.

Notast er við hefbundnar kistur. Líkið er lagt í kistuna með handleggina meðfram síðunum. Hendur eru lagðar saman á bringunni og íkon eða kross eru lögð í hendurnar.

Presturinn fer með stutta bæn (litia) við kistuna að viðstaddri fjölskyldu hins látna áður en kistunni er lokað og hún flutt í kirkjuna eða kapelluna. Ef aðstæður leyfa, eru sálmar lesnir við opna kistuna.

Andlátsfregn er birt á hefðbundinn hátt í dagblaði. Kross rétttrúnaðarkirkjunnar er birtur í tilkynningunni.

Blóma- og kransaskreytingar eru iðulega ríkulegar við rétttrúnaðarútför. Þar eð kistan er yfirleitt höfð opin við athöfnina og algengt að kirkjugestir leggi blóm í kistuna. Blómin eru fjarlægð úr kistunni áður en henni er lokað látin fylgja kistunni að gröfinni.

Presturinn lætur reyk úr reykelsiskerti leika um kistuna nokkrum sinnum á meðan á athöfn stendur og þarf útfararstofan því að gæta þess að blóma- og kransaskreytingum sé þannig fyrir komið að hann geti hæglega gengið í kringum kistuna.

Kórsöngur skipar veigamikinn sess í guðsþjónustunni en orgeltónlist er yfirleitt ekki spiluð.

Sé þess kostur fer útförin fram í safnaðarkirkjunni. Ef þetta er ekki gerlegt fer athöfnin fram í kirkjum eða kapellum þjóðkirkjunnar. Í undantekningum má jarðsyngja á heimili hins látna.

Hefð er fyrir því að útförin sé gerð á 3. degi eftir andlát. Þetta er ekki alltaf framkvæmanlegt en eftir sem áður skal kappkostað að jarðsyngja eins fljótt og unnt er.

Kistunni er komið fyrir í miðju rýminu, umlukin þrem kertastjökum. Athöfnin fer iðulega fram við opna kistu. Andlit hins látna veit að altarinu.

Presturinn þjónar með tilstyrk söngs. Hann stendur við höfuðgafl kistunnar og snýr að altarinu. Við hlið lestrarpúltsins þarf að vera lítið borð svo presturinn geti lagt frá sér reykelsi ofl.

Kirkjugestir standa með kertaljós meðan athöfninni vindur fram.

Útförin er fyrst og fremst fyrirbænaguðsþjónusta handa hinum látna. Hin kristnu lífsgildi, vonin og kærleikurinn, eru reifuð og beðið er fyrirgefningar á syndum hins látna.

Athöfnin einkennist eins og aðrar kirkjuathafnir rétttrúnaðarkirkjunnar af víxlsöng safnaðar (kórs) og prests. Það er til siðs að kveðja hinn látna með kossi á borða á enninu. Ef kistan er lokuð eru íkon eða kross ofan á kistulokinu kysst.

Áður en kistunni er endanlega lokað er hvít ábreiða lögð yfir líkama og andlit. Ofan á ábreiðuna er sáldrað blessaðri mold blandaðri ösku úr reykelsiskeri.

Aðrir en prestar mega flytja líkræðuna (minningarorðin).

Frá kirkjunni gengur syrgjandi líkfylgdin að gröfinni. Presturinn er í fararbroddi með reykelsisker og kross í hendi. Presturinn blessar gröfina áður en kistan er látin síga. Að svo búnu fer hann með blessunarorð (litia). Presturinn og líkfylgdin ljúka athöfninni með því að kasta handfylli af möld í gröfina.

Eftir jarðsetningu koma aðstandendur saman til erfidrykkju. Í erfidrykkjunni fer presturinn með bæn bæði fyrir hinum látna og aðstandendum.

Minningarmessur (panihida) eru haldnar á þriðja, níunda og fertugasta degi eftir andlát. Því næst á ártíð andlátsins, á nafnadögum hins látna og á almennum minningardögum látinna.

Við slíkar minningarmessur er borin fram skál með soðnum hveitikornum og hrísgrjónum í bland við hunang. Þetta á að minna á upprisuna og „sætan“ unað himnaríkis.

 Minningamörk eiga að vera kross sem táknar sigur lífs yfir dauða og má útfæra hann á ýmsa vegu (og úr mismunandi efnum). Auk hefðbundinna áletrana (svo sem nafns, fæðingar- og dánardægurs) má einnig áletra texta með trúarlegu inntaki. Minningamörk eru staðsett við fótagafl leiðisins. Á ártíðum skreyta ættingjar leiðið með blómum og kertaljósum.  

Rómversk-kaþólska kirkjan

Árið 2015 voru 11.911 rómversk-kaþólskir skráðir á Íslandi en í maí 2021 eru þeir 14.658.[1]

Áður fyrr var bálför ekki leyfð innan rómvesk-kaþólsku kirkjunnar. Flestir rómversk-kaþólskir kjósa enn jarðarför, þó svo að sífellt fjölgi þeim er kjósa bálför.

Útfararstofur koma með venjulegum hætti að framkvæmd útfarar en rétt er þó að geta þess að útfararhættir eru nokkuð breytilegir eftir uppruna rómversk-kaþólskra og í tilvikum innflytjenda tekur útfærslan mið af venjum heimalandsins.

Fyrir andlát er sérstaklega mælt með því að prestur sé tilkallaður þegar alvarleg veikindi eða dauðsfall ber að höndum. Jafnframt er algengt að prestur vitji safnaðarbarna sem liggja á spítala þó svo að ekki sé um alvarleg veikindi að ræða. Hafa ber samband við prest og veita hinum sjúka færi á að ræða við hann í einrúmi og e.t.v. vegna skrifta, óski sjúklingur þess.

Herbergið skal vera hreint þegar prestinn ber að garði og koma skal fyrir borði með hvítum dúki, eins konar ígildi altaris, í sjónlínu sjúklings svo hann geti fylgst með athöfninni.

Í framhaldi af samtali prests og sjúklings er fjölskylda hins síðarnefnda iðulega viðstödd þegar hann meðtekur heilagt altarissakramenti og smurningu sjúkra.

Presturinn tekur hina heilögu olíu og smyr sjúklinginn á enni og í lófa á meðan hann þylur:

„Fyrir þessa heilögu smurningu og milda miskunn sína hjálpi Drottinn þér fyrir náð Heilags anda, svo að hann, sem hefur leyst þig undan syndinni, frelsi þig og mildilega hughreysti þig.“

Smurning er ekki eingöngu veitt dauðvona fólki – oft er litið á hana sem læknandi kraft Guðs, einn og sami aðili getur þá meðtekið þetta sakramenti oftar en einu sinni.

Athöfninni lýkur með bæn og blessun.

Eftir andlát biðja prestur, aðstandendur og aðrir sem kunna að vera við dánarbeðið fyrir þeim látna. Oft fara aðstandendur með bænina Rósakransinn.

Áður fyrr var hefð fyrir líkvöku. Nú á dögum eru það aðallega innflytjendahópar sem halda í þessa hefð. Er þess þá farið á leit að líkið sé haft til sýnis í kapellu eða bænahúsi. Að baki hefðinni býr sú nána og persónulega kveðja sem í líkvökunni felst.

Rómversk-kaþólska kirkjan hefur ekki tekið afstöðu til krufningar. Þar af leiðir að hver og einn verður sjálfur að gera þetta atriði upp við sig. Í kristnum kirkjum skiptir hins vegar höfuðmáli að lík skuli meðhöndla af virðingu.

Sum lönd, t.d. Bandaríkin, krefjast þess að líksmurning skuli fara fram áður en til hugsnalegs flutnings á líki kemur. Gerist þess þörf, fer líksmurning fram á sjúkrahúsi.

Búið er um lík á hefðbundin hátt, það er þvegið og klætt. Lík presta, munka og nunna eru klædd í kufla sinnar reglu eða í samræmi við það embætti sem viðkomandi gegndi.

Notast er við hefðbundnar kistur. Hinn látni er lagður í kistuna með kross eða bænafesti í hendi. Kistulagningar kaþólskra fara nánast undantekningarlaust fram í Fossvogskapellu nokkrum dögum eða skömmu fyrir útförina, þ.e. með sama hætti og hjá þjóðkirkjunni.

Andlátstilkynning er birt á hefðbundinn hátt í dagblaði en fyrir ofan krossinn í tilkynningunni skulu standa bókstafirnir RIP sem er skamtöfun á lat. Requiescat in pace, sem merkir „Hvíl í friði“.

Andlát er einnig tilkynnit í guðsþjónustu og er þá ætíð beðið fyrir hinum látna.

Aðstandendur velja þær blómaskreytingar og tónlist sem henta þykja við útförina.

Páskakertinu er komið fyrir við kistuna; ef verið er að jarðsyngja prest eru kaleikur og stóla lögð við kistulokið. Stundum er óskað eftir því að minnig hins látna sé heiðruð með framlagi til góðs málefnis í stað blóma.

Sé þess kostur, skal útförin gerð frá safnaðarkirkjunni þar sem sálumessa er haldin. Ef þetta er ekki gerlegt fer athöfnin fram í kapellu án messu.

Kistan er staðsett fyrir framan altarið og skreytt á venjubundinn hátt, þó þannig að auðvelt sé fyrir prestinn að ganga umhverfis hana.

Sjálf athöfnin fer fram í messu sem nefnist „Requiem“ eða „Sálumessa“; í henni er beðið og sungið fyrir sálu hins framliðna. Yfirleitt flytur presturinn ekki minningarorð þar sem talað er vítt og breitt um ævi hins látna. Áhersla er aftur á móti lögð á bæn fyrir þeim sem hefur kvatt þennan heim. Eftir athöfnina stökkvir presturinn vígðu vatni á kistuna og veifar reykelsi að henni. Því næst er kistan borin út undir orgelleik.

Að athöfn lokinni í kirkjunni er haldið til grafreitis og stutt athöfn haldin við gröfina. Presturinn blessar gröfina og kistuna með vígðu vatni áður en kistan er látin síga. Að svo búnu fer hann með bæn og kastar rekunum.

Litirnir sem helgisiðir mæla fyrir um við útför eru svart og fjólublátt. Hvítt er hins vegar sorgarlitur t.d. í Víetnam og er því stundum notaður.

Jarðsetja má duftker án þess að prestur sé viðstaddur.

Hvort erfidrykkja sé haldin, veltur á aðstandendum eða vilja hins látna.

Rómversk-kaþólskir eru ekki andvígir því að vera jarðsettir í almennum grafreitum. Í ýmsum löndum hafa þeir þó sér grafreit en hérlendis er rómversk-kaþólskur grafreitur aðeins til í Landakoti, en þar eru einungis jarðsettir biskupar, prestar og reglusystur.

Siðmennt og húmanismi

Á Íslandi voru 1.020 manns skráðir í Siðmennt árið 2015 en þann 1. maí 2020 eru 3.660 skráðir.

Í augum húmanista er lífið aðeins eitt fyrir hvern einstakling en litið svo á að manneskjan lifi áfram óbeint í gegnum afkomandur sína og orðstír. Húmanistar trúa ekki á tilveru sálar eða andlegs íverustaðar eftir dauðann.

Á heimasíðu Siðmenntar er útfararskrá sem fólk getur fyllt út, prentað og sett afrit í hendur sinna nánustu. Á þessu blaði koma fram óskir viðkomandi um að haldin verði veraldleg eða húmnísk útför. Þá bendir Siðmennt á að hyggilegt sé fyrir fólk að fylla út lífsskrá til að útlista óskir sínar varðandi endurlífgunartilraunir, öndunarvélar og líffæragjafir.

Beri andlát að á spítala/stofnun er brýnt að hinn deyjandi fái að ráða sem mestu um aðstæður og hafi tök á að kveðja sína nánustu í einrúmi og kyrrð. Til að halda skýrleika í hugsun uns yfir lýkur hvetja húmanistar til varkárni við gjöf lyfja sem hafa slævandi verkun.

Húmanistar vilja að jafnaði ekki fá fulltrúa trúarsafnaða í heimsókn nema þess hafi sérstaklega verið óskað.

Engir sérstakir siðir fylgja húmanistum á þessari stundu og mótar hver einstaklingur og fjölskylda sinn eigin hátt.

Enging tákn eða líkneski eru viðhöfð. Húmanistar vilja vera vel upplýstir um ástand sitt og fá að njóta skynsamlegrar verkjadeyfingar eftir þörfum.

Eftir andlát er ekki um neina athöfn að ræða við dánarbeðið og húmanistar haa ekki sérstaka fulltrúa sem heimsækja viðkomandi.

Húmanistar fara eftir reglum sjúkrahúsa um frágang á líkinu eða koma með einstaklingsbundnar óskir. Húmanistar eru oft og tíðum opnir fyrir því að gefa líffæri ef mögulegt er að nota þau. Það er því velkomið að starfsfólk líffæragjafateymis fái að tala við þá nánustu.

Útför skal fara fram innan venjubundins tímaramma en engar sérstakar venjur gilda um það á meðal húmanisma.

Húmanistar setja sig yfirleitt ekki á móti krufningu sé hún talin nauðsynleg eða jafnvel þörf fyrir kennslu. Þetta fer eftir atvikum og er einstaklingsbundið.

Engar sérreglur gilda um líkklæði og er það því í valdi aðstandenda að ákveða líkklæðnað.

Engar sérstakar reglur gilda um kistulagningu og skal það vera samkomulagsatriði þeirra nánustu og athafnarstjórans. Notaðar eru venjulegar kistur og skal kista vera án trúartákna.

Andlátsfregn er birt á hefðbundinn hátt. Nota má alþjóðlegt merki húmanista sem tákn við andlátsfregnina. Það er notað af einstaklingum og samtökum húmanista um allan heim. Annars er húmanistum frjálst að nota hvaða merki sem er eftir eigin vali og sumir hafa kosið uppáhaldsblóm, friðardúfu eða annað merki sem ekki tengist trúarbrögðum en er á einhvern hátt tengt lífi hins látna.

Aðstandendum er frjálst að velja þá tónlist sem henta þykir við útförina en hún skal að öllu jöfnu ekki hafa trúarlegt gildi. Blómaskreytingar eru valkostur hvers og eins.

Útförin fer fram í kapellu eða félagsheimili án trúartákna. Húmanistar kjósa ýmist jarðarför eða bálför. Leitast er við að nota húsnæði sem er ætlað öllum og byggt fyrir kirkjugarðsgjöld allra landsmanna eða viðeigandi veraldleg húsakynni.

Athafnarstjóri leiðir alla jafna athöfnina, en fyrir kemur að náinn vinur eða ættingi annist hana. Athöfnin er fólgin í virðulegum upphafsorðum, tónlist, húmanískri hugvekju, minningarorðum, stundum upplestri ljóða eða persónulegrar minningarræðu aðstandenda.

Þegar náinn vinur eða ættingi deyr ríkir ekki eingöngu sorgartilfinning. Húmanistar fagna lífshlaupi hins látna og það má t.d. gleðjast yfir skemmtilegum minningum og hamingjustundum, afkomendum, því sem við lærðum af hinum látna, það sem hún/hann gerði fyrir okkur og því að viðkomandi sé nú hluti af jörðinni.

Skreyting útfararkapellunnar getur verið með ýmsu móti. Ljós, blóm og annað fer eftir persónulegum smekk. Fari athöfnin fram í húsakynnum trúfélags eru trúartákn fjarlægð eða hulin eftir því sem mögulegt er og óskað er eftir.

Athöfnin við gröfina er alla jafan einföld og stutt. Athafnarstjóri fer með ljóð eða stutt minningarorð fyrir jarðsetningu. Engin tákn eru gerð með höndum eða viðhöfð að öðru leiti. Húmanistar kveðja hinn látna hver með sínum hætti en algengt er að lúta höfði, hneigja sig stutt eða setja rós á kistuna. Athafnarstjóri kveður nánustu aðstandendur og athöfninni er lokið. Engar hefðir eru hvað varðar lokun grafar.

Venja er fyrir því hjá Íslendingum að halda erfidrykkju og er það einstaklingsbundið hjá húmanistum hvort þeir haldi slíka eða ekki. Heiðra má minningu hins látna með fjárframlögum í þágu góðra málefna.

Notast er við venjulegan grafreit en það er einstaklingsbundið hvort húmanistar vilji forðast trúarlega vígða grafreiti eða ekki.

Engar reglur gilda um val á legsteini eða minnisvarða. Auk hefðbundinna áletrana er merki húmanista stundum rist á legsteininn eða tilvitnun í húmanískt spakmæli. Aðstandum er ráðið frá því að nota hvers kyns trúartákn. Húmainstar festa sér stundum leiði og taka frá grafstæði handa maka. Leiðin eru stundum skreytt, blóm gróðursett og lýsingu komið fyrir. 


[1] www.skra.is