Búddismi

Búddismi

Um 1.200 búddistar[1] eru búsettir á Íslandi og eru flestir þeirra ættaðir frá Thaílandi.[2] Fyrstu búddasamtökin á Íslandi, SGI, voru stofnuð árið 1980 og eru flestir félaganna íslenskir en þeir eru um 200 talsins í dag.

Í augum búddista er lífið samfella. Dauðinn markar ekki endalok lífsins heldur aðeins þáttaskil. Dánarstundin er þó engu að síður álitin afar þungvæg og alvarleg stund.

Ef hinn deyjandi liggur á spítala/stofnun er brýnt að hann hafi tök á því að kveðja sína nánustu í andrúmi kyrrðar og friðar. Að jafnaði er farið fram á að hinn dauðvona fái að vera í einrúmi. Óæskilegt er jafnan talið að hann taki lyf sem hafa slævandi verkun, því mikilvægt er að hann geti kvatt með hugarró og skýrleika í hugsun.

SGI búddistum er mikilvægt að aðstandendur og nánustu vinir séu viðstaddir þegar búddisti er að skila við og kyrji lögmál lífsins, Nam-mjóhórenge-kjó, upphátt yfir þeim sem er að kveðja.

Margir vilja að munkur eða annar fulltrúi trúfélagsins sé tilkallaður. Honum er ætlað að blessa hinn dauðvona og lesa upp úr helgum textum (sutra).

Sumir fara svo fram á að kveikt sé á kertum og reykelsi í herberginu, að blóm séu til staðar svo og mynd af Búdda. Búddamyndin á að minna hinn deyjandi á meistarann mikla, orð hans og leiðsögn, svo hann megi sækja styrk og innblástur til að afbera lokaþrautirnar.

Eftir andlát er þess óskað að munkur sé tilvkaddur. Engar sérstakar reglur gilda um það hvernig skuli þvo og búa um líkið en sumir lærifeður eru þeirrar skoðunar að ættingjar skuli taka það að sér til að sýna umhyggju og virðingu. Stundum óska ættingjar eftir því að kistan sé flutt á heimili hins látna svo halda megi kveðjustund þar.

Útför skal fara fram svo fljótt sem unnt er. Vajrayana-búddistar vilja þó fara hægar í sakirnar og láta nokkurn tíma líða. SGI búddistar leggja áherslu á að aðstandendur fái nægan tíma strax eftir andlát til að kveðja hinn látna og kyrja upphátt yfir honum. Þessi ósk helgast af þeirri skoðun að það taki hinn látna nokkurn tíma að kveðja jarðarlíkama að fullu; kyrjunin er talin draga fram búddaeðli hins látna og hjálpa honum að losa tökin og þannig halda áfram í næstu tilvist.

Engar trúarreglur banna krufningu búddista, en sumir eru henni mótfallnir og því betra ef hinn látni hefur látið vilja sinn í ljós. Þar sem búddistum er almennt náungakærleikur hugfólginn má búast við að þeir verði við beiðni um líffæragjöf.

Heimilt er að smyrja lík. Þeim sem það er falið skal vera af sama kyni og hinn látni/látna.

Lík munka og nunna skal klætt af sama kyni og hinn látni/látna. Þau eru klædd í kufla sinnar reglu, að Vajrayana-munum undanskildum, en þeir eru klæddir í gulan kufl. Leikmenn eru sveipaðir í hvít klæði.

Engar sérstakar reglur gilda um kistulagningu en kista skal vera án trúartákna (enginn kross).

Andlátstilkynning er hefðbundin en nota má „hjól viskunnar“ (dharma chakra) sem tákn. SGI búddistar nota Lótusblómið eða SGI- merkið við birtingu andlátsfréttar.

Útför fer fram í kapellu. Við útförina þykja miklar blómaskreytingar veigamikill þáttur og oft er óskað eftir sérstöku borði undir ljósmynd af hinum látna; einnig hljómflutningstækjum.

Sumir búddistar kjósa jarðarför, aðrir bálför. Helgitextar búddismans gefa engin fyrirmæli um útfararhátt og siðirnir eru afar breytilegir eftir löndum.

Munkur leiðir jafnan athöfnina en fyrir kemur að nunna annist hana. Athöfnin er fólgin í táknrænum gjörðum, svo sem austri með vígðu vatni, sútra-upplestri, játningu, lofgjörð og bæn. Upplesturinn má fara fram á hvaða máli sem er en oft er tungumálið palí valið en það er eitt mikilvægasta tungumál búddismans.

Skreyting kapellunnar getur verð með ýmsu móti. Ljós, blóm og reykelsi skipa ávallt drjúgan sess.

Við bálför fara aðstandendur stundum fram á að fá að standa við ofninn. Við jarðarför er athöfnin við gröfina að jafnaði einföld og stutt. Ekki er óþekkt að eigur hins látna séu brenndar og að kveikt sé á reykkelsi við gröfina. Stundum óska aðstandendur eftir því að taka þátt í að loka gröfinni.

Hefð er fyrir því að halda minningarstund sem ætlað er að votta hinum látna virðingu. Minningarstundin fer iðulega fram þegar vika er liðin frá andláti. Að svo búnu eru stundum haldnar minningarstundir að 3 mánuðum liðnum og aftur að ári liðinu.

Aðstandendur eru einnig hvattir til að heiðra minningu hins látna með fjárframlögum til nauðstaddra eða með því að leggja góðgerðarstarfsemi lið.

Notast er við almennan grafreit og skal höfuðið snúa í vestur.



[1] Hér eru taldir meðlimir í búddistafélagi Íslands og SGI félaginu sjá tölur á: http://hagstofa.is/Hagtolur/Mannfjoldi/Trufelog