Íslam

Íslam

Íslam er önnur fjölmennustu trúarbrögð heims með um 1,3 milljarða fylgismanna. Á Íslandi voru 371 maður skráður múslimi árið 2007 en árið 2015 eru þeir 875 í tveimur trúfélögum, Félag múslima á Íslandi og Menningasetur múslima á Íslandi.[1]

Íslam er arabískt orð sem táknar undirgefni  og  frið, þ.e. undirgefni við Allah, Guð múslima og þann frið sem Allah veitir. Múslimi er sá sem beygir sig undir vilja Allah og hlýðir boðorðum hans. Í augum múslima er íslam ekki eingöngu trúarbrögð heldur líka lögmál (sharia) sem hlíta skal í einu og öllu.

Múslimar óska þess yfirleitt að fá að deyja heima hjá sér. Sumir vilja fá að deyja í heimalandi sínu, sé þess nokkur kostur. Sé hinn dauðvona á sjúkrahúsi þykir mjög æskilegt að hann fái að vera í einrúmi. Trúarleg tákn skulu ekki vera í herberginu. Algengt er að nánasta fjölskylda, ættingjar og nánir vinir séu nærstödd, enda mikil áhersla lögð á að hinn sjúki þjáist ekki og deyi í einsemd. Skylda þessi á sér trúarlegar forsendur og tjáir jafnframt umhyggju samfélagsins fyrir einstaklingnum. Margir óska þess að ímam eða annar fulltrúi trúgreinar viðkomandi vitji þeirra. Slík vitjun gefur færi á samtölum, bæn, sálusorg og upplestri úr Kóraninum.

Íslam kennir að manneskja falli frá þegar „Guði þóknast“ og að hún verði eftir dauðann að standa skil á lífi sínu. Brýnt er að hinn dauðvona fái að fara með trúarjátninguna: „Það er enginn annar Guð en Allah og Múhameð er spámaður hans“. Trúarjátninguna mega aðrir líka flytja fyrir hans hönd. Jafnmikilvæg er bænin til Guðs um fyrirgefningu, miskunn og samúð.

Íslam leggur áherslu á að hinn sjúki gangi frá málum gagnvart sínum nánustu. Það er m.a. fólgið í því að aðstoða skal hinn sjúka við gerð erfðaskrár, hafi það ekki verið frágengið.

Líknardráp eru stranglega bönnuð í íslam.

Ekki er gert ráð fyrir því að múslimi tjái sorg sína á háværan hátt. Ástæðan er sú að litið er á sterk tilfinningaköst sem merki um bilandi trú eða aðra trúarlega bresti. Skoðanir á þessu eru þó mjög mismunandi eftir svæðum.

Við andlát eru hinum látna veittar nábjargir og andlitinu beint í átt að Mekka. Að svo búnu er farið með bæn fyrir hinum látna og breitt yfir líkið.

Í trúarlegu samhengi er krafan um hreinleika áberandi en í íslam er lagt sérlega mikið upp úr hreinleika. Andlátsathöfnin er umfangsmikil og hefur mikið vægi. Líkið er þvegið strax eftir andlát og er það algjört skilyrði meðal múslima. Yfirleitt tekur nánasta fjölskylda hins látna að sér að þvo og búa um líkið. En ímam getur líka annast athöfnina eða annar aðili sem fjölskyldan treystir og er kunnugur íslamskri hefð. Reglan er sú að lík af manni skal þvegið af múslimskum mönnum eða eiginkonu hans og lík af konu af múslímskum konum eða eiginmanni hennar.

Jafnan tekur hálfan dag að þvo og klæða líkið.  Æskilegt þykir að kveikja á reykelsi áður en líkþvottur hefst. Sé vatn ekki tiltæknt eða smithætta er fyrir hendi vegna t.d. rotnunar er mælt með nákvæmum þvotti sem felst t.d. í notkun sands eða moldar. Kynfæri eru hulin öðrum en maka. Þau eru þvegin fyrst, svo tekur við wudu ‚ sami helgisiðaþvottur og viðhafður er fyrir bænagjörð. Eftir að höfðuðið er þvegið skal allur líkaminn þveginn (hægri hlið fyrst). Því næst er allur líkaminn þveginn þrisvar. Sé hann ekki hreinn eftir það skal hann þveginn í oddatöluskipti (5,7 osfrv). Í síðasta skiptið er notuð ilmolía, t.d. kamfer, í vatnið. Engu vatni er sparað til að hreinsa líkamann. Bera skal ilmvatn á þá líkamshluta sem snerta flötinn þegar lagst er á bæn (enni, nef, lófa, hné og fætur

Múslimar eru ekki mótfallnir krufningu þegar hennar gerist þörf en leita þarf samþykkis aðstandenda.

Klæða ber líkið í klæði úr hvítri bómull (takfin). Ekki skal nota silki handa karlmanni.Efnið á helst að vera án sauma en sé það ekki fyrir hendi má notast við lak. Karlmenn eru klæddir í 3 lög en konur í 5. Hafi hinn látni farið í pílagrímsförina til Mekka skal hann að jafnaði sveipaður pílagrímsklæði sínu sem er 2 lög (aðeins karlmenn).

Líkið er lagt á hægri hlið í kistuna með handleggina meðfram síðum. Kistan er ekki skreytt og á að vera eins einföld og framast er kostur til marks um að allir séu jafnir fyrir dauðanum. Kistan er ekki skreytt með blómum eða krönsum en þó eru frávik frá þessu í sumum löndum.

Tónlist og söngur eru ekki leyfð við útförina.

Farið er með útfararbænina í moskunni, á heimilinu eða við gröfina. Fulltrúi aðstandenda leiðir stundum útfararbænina en iðulega er sú athöfn falin ímam.

Forsendur slíkarar bænar eru þær að hinn látni sé múslimi og að þvottur hafi farið fram eftir settum helgisiðum. Jafnframt er sú krafa gerð að athöfnin fari fram eftir ýmsum öðrum reglum, svo sem að það fólk sem er á bæn myndi minnst þrjár raðir og að minnst tvær persónur sé í hverri röð. Þar til grundvallar liggja eftirfarandi orð spámannsins: „Ef múslimi deyr og þrjár raðir múslima biðja fyrir honum fær hann inngögnu í Paradís“.

Bálför er óheimil.

Jarða ber hinn látna sem fyrst, helst 1 – 2 dögum eftir andlát. Í íslömskum löndum eru lík yfirleitt jörðuð án kistu, en víða annars staðar í heiminum er jarðað með kistu. Ræður loftslag á hverjum stað nokkru um. Á Íslandi er jarðað með kistu.

Kistan er borin frá þeim stað, þar sem útfararbænin var flutt, að grafreitnum. Litið er á það sem trúarlega skyldu að bera kistuna rétt eins og að þvo hinn látna. Karlmenn bera kistuna á herðum sér og skal hún borin með reisn. Ef um talsverða vegalengd er að ræða, er algengt að skipt sé um burðarmenn.

Áður en kistan er borin fara viðstaddir með bæn og eru allir standandi, gagnstætt því sem tíðkast við bænahald almennt, og snúa í átt að Mekka.

Alla jafna fylgja aðeins karlmenn hinum látna til grafar og er sú venja einnig viðhöfð þegar kona er borin til grafar. Að konur skuli ekki fylga látnum ástvinum til grafar er rökstutt með því að útför sé mikið tilfinningalegt álag, konur hafi mikilvægum skyldum að gegna á heimilinu s.s. að taka á móti þeim sem samhryggjast, elda, sinna börnum og öðrum. Þá sé konum hættara við að láta hryggð sína í ljós með þeim hætti sem ekki samrýmist venjum íslam, t.d. með háværum grát og ópum. Ákveði kona engu að síður að vera viðstödd, skal hún hlíta reglum íslams um viðeigandi klæðaburð og hegðun.

Grafirnar skulu snúa í átt að Mekka, þ.e.a.s. að andlit hins látna skal vísa í átt að Mekka sem er þungamiðja íslams og helgasti staður múslima. Ímam eða annar múslimi sem verkinu er vaxinn stýrir athöfninni við grafarbakkann og fylgir hann ákveðnum venjum við þá athöfn.

Greftrun á tvöföldu dýpi í jörðu er ekki heimil.

Loka skal kistunni eins fljótt og auðið er og algengt er að aðstandendur vilji framkvæma það sjálfir.

Flestar trúarstefnur íslams fylgja í meginatriðum því athafnamynstri sem hér hefur verið lýst en hafa ber í huga að múslimar eiga sér mjög mismunandi menningarlegan bakgrunn og eru upprunnir í hinum ýmsu þjóðríkjum sem spanna gríðarstórt landssvæði og siðvenjur því afar breytilegar.

Múslimar vitja fjölskyldu hins látna strax eftir að frétt af andláti berst. Einnig koma vinir og vandamenn saman að útför lokinni til að votta hinum syrgjandi samúð og veita stuðning. Vettvangur slíkra vitjana getur verið heimili hins látna, skyldmenna eða moskan. Lesið er uppúr Kóraninum og Guð beðinn um að fyrirgefa hinum látna og sýna honum miskunn. Fólk leggur sig fram um að samhryggjast þeim sem eiga um sárt að binda, iðulega með þessum orðum: „Það sem Guð gaf og það sem Guð tók er hans og hann ákvað tímasetningu þess alls“.

Mælst er til þess að skyldmenni, nágrannar og vinir létti undir með nánustu aðstandendum með því að elda eða koma með mat og reka nauðsynleg erindi fyrir aðstandendur. Séu lítil börn í fjölskyldunni er ekki gert ráð fyrir að syrgjendur reiði fram mat handa þeim sem koma til að samhryggjast. Það er í verkahring annarra.

Ef boðið er til erfidrykkju í moskunni, borða konur og karlar í sitt hvoru rýminu.

Sorgartímabilið er að hámarki 3 dagar við missi náins skyldmennis. Skv. Bukhari er bannað (harám) að syrgja lengur. Fyrirskipaður biðtími (‚idda) íslamskra laga við eiginmannsmissi eru 4 mánuðir og 10 dagar. Með þessu fyrirkomulagi kemur í ljós hvort konan er barnshafandi og tryggir þannig, ef því er að skipta, erfðarétt barnsins eftir föður sinn. Ekkjunni er óheimilt að giftast aftur á þessu tímabili sem er nokkur konar festar. Notkun ilmvatns, farða, skartgripa, litríkra klæða og andlitsslæðu er jafnframt bönnuð á þessu tímabili. Reglurnar eiga einnig við um konu sem ekki er múslimi.

Hér á landi hafa múslimar sérgrafreiti í Gufuneskirkjugarði. Grafreiturinn þarf að vera auðkenndur og afmarkaður með skýrum hætti frá grafreitum annarra trúfélaga á svæðiu. Einnig verður að merkja sjálfa gröfina þannig að ekki sé traðkað á henni fyrir slysni. Að jafnaði er ekki leyfilegt að færa gröf múslima eða eyða henni.

Höfuðmáli skiptir að ekki sé varið miklu fé í útförina og leiðið. Þess í stað skal nota féð til hjálpar fátækum og þurfandi og biðja Guð um að launa hinum látna þau óbeinu góðverk. Í tímans rás er þó merking leiða orðin algengari. Núorðið er notast við fábrotna, litla legsteina með hefðbundnum áletrunum. Stundum eru ljós látin loga við leiðið en með því er verið að bregða út af íslamskri trúarhefð og ber það vott um aðlögun að vestrænum hefðum. Skreytingar á leiðum múslima eru einnig orðnar algengari.

Súnni-múslimar leggja áherslu á að gröfin skuli aðeins rúma eina persónu en slík tilmæli eru lögð til hliðar ef styrjaldir eða farsóttir berast út.

Búið er um andvana börn, svo og andvana fædd, á sama hátt og fullorðinna, lík þeirra eru þvegin og greftruð með sama fyrirkomulagi. Ef barnið er yngra en 8 ára gildir einu hvort kona eða maður búi um það og þvoi.