Gyðingdómur

Gyðingdómur

Engin gyðingleg trúfélög eru skráð á Íslandi, enda fáir Gyðingar sem búa hér á landi.

Bálför er bönnuð í gyðingdómi og því er jarðarför í kistu hinn hefðbundni háttur. Í Talmúd er bálför lýst sem heiðnum sið og bann er lagt við því í gyðingdómi að aðstoða við bálför Gyðings. Útfarir eru hvorki gerðar á sabbatsdegi né á helgidögum Gyðinga.

Dauðvona Gyðingur fer með trúarsetninguna (shemah) og ef inn sjúki er ekki fær um það fer náinn aðstandandi með hana fyrir hans hönd.

Búið er um lík af útfararstofunni í kapellunni (tahara). Um er að ræða hreinsun sem framkvæmd er eftir ákveðnum helgisiðum áður en jarðsett er. Sá sem býr um líkið verður að vera af sama kyni og hinn látni.

Krufning er almennt bönnuð. Hingað til hafa Gyðingar verið þeirrar skoðunar að slík aðgerð og rannsókn á líki sé ótæk og sýni hinum látna óvirðingu og er þess vegna ekki leyfð. Litið er svo á að við krufningu sé líkið gert að ópersónulegi viðfangi og það samrýmist ekki þeirri friðhelgi sem líkami hins látna eigi rétt á. Þrátt fyrir þessa afstöðu hafa trúarleiðtogar Gyðinga þó viðurkennt að virðing fyrir hinum látna þurfi að víkja fyrir hagsmunum sem eru meiri: Að bjarga og viðhalda lífi annarra. Gyðingar leggjast eindregið gegn því að krufningar séu stundaðar sem hver önnur vinnuregla og því þarf í hverju tilviki að leita samþykkis með hliðsjón af því að almment sé krufning bönnuð.

Útfararstofa annast líkklæðningu. Líkið er klætt í einfalda, hvíta skikkju (tachrichim). Poka með mold frá Ísrael er komið fyrir undir höfðalagi hins látna eða moldinni sáldrað í kistuna. Karlmenn eru klæddir í bænasjalið (talit).

Þar sem litið er svo á að allir séu jafnir fyrir dauðanum er gert ráð fyrir að kistan sé látlaus. Hún er smíðuð úr hefluðum, ómáluðum borðum og á að vera án útflúrs. Trénaglar eru notaðir í stað járnnagla og tengist sú hefð trúnni á upprisu.

Útförin fer fram eins fljótt og verða má eftir andlát og er hinn látni sóttur af útfararstofunni sama dag og hann deyr. Stundum er líkvaka á heimili hins látna, en sá siður er þó fátíður núorðið. Aðstandendur kveikja á kerti og setja það við höfðalag hins látna, lesa upp úr bók Sálmanna og vaka yfir hinum látna. Í kapellunni annast útfararstofan líkvökuna uns útför er gerð.

Í andslátstilkynningu er notast við Davíðsstjörnuna sem tákn.

Blóm og tónlist eru ekki leyfð við útförina og er ástæðan sú að mikilvægt er talið að einfaldleiki og jöfnuður ráði ríkjum. Aðstandendur eru þess í stað hvattir til að heiðra minningu hins látna með framlagi til góðgerðarstarfsemi í þágu nauðstaddra eða fákætra Gyðinga, til gróðursetningar trjáa í Ísrael o.fl.

Útförin er í tveimur liðum, annars vegar í kappellunni og hins vegar við gröfina.

Syrgjendur bera allir höfuðfat og eru dökkklæddir. Gilda þær reglur einnig um þá sem ekki eru gyðingatrúar. Þegar kistan hefur verið látin síga ofan í gröfina kasta karlkyns syrgjendur þremur moldarrekum á kistuna á meðan konurnar fara með bæn í hljóði. Rekur verða að vera tiltækar á staðnum því þegar er hafist handa við að loka gröfinni. Að minnsta kosti einn úr líkfylgdinni verður að vera við gröfina þar til henni hefur verið lokað.

Nánustu aðstandendur taka þátt í Kadisch- bæninni sem er einn vegamesti liðurinn í útförinni. Að svo búnu þvo syrgjendur hendur sínar áður en grafreiturinn er yfirgefinn.