Hvernig útför fer fram

Þótt flestar útfarir séu í grundvallaratriðum með svipuðu sniði í samræmi við Helgisiðabók íslensku kirkjunnar eru þær samt mjög breytilegar og fer það eftir óskum aðstandenda eða hins látna. Einkum eru útfarir frábrugðnar hver annarri hvað tónlistarval og tónlistarflutning snertir.

Kistulagning

Kistulagning er stutt kveðjuathöfn nánustu fjölskyldu. Þessi siður er útbreiddur á Íslandi en hefur lagst af víða í nágrannalöndum okkar. Stundum er tónlist og söngur við athöfnina. Yfirleitt er kistan opin og blæja er höfð yfir ásjónu hins látna. Aðstandendur ráða því hvort blæjan er fjarlægð og er það gert í lok athafnar.

Kistulagning gæti farið þannig fram:

 • Forspil
 • Ritningarlestur
 • Bæn 
 • Sálmur
 • Signing og blessun

Útför

Útför er kveðjuathöfn samfélagsins. Nánasta fjölskylda hins látna situr á fremstu bekkjum vinstra megin í kirkjunni en líkmenn hægra megin. Venja er að sex eða átta nánir ættingjar og vinir beri kistuna. Kistan er borin út undir eftirspilinu. Þegar blóm og kransar eru við kistu þarf að hugsa fyrir því hverjir beri þá úr kirkju.

Útför gæti farið þannig fram:  

 • Forspil
 • Bæn
 • Ritningarlestur
 • Sálmur eða tónlistarflutningur
 • Guðspjall
 • Sálmur
 • Minningarorð
 • Sálmur, einsöngur eða einleikur
 • Bænir
 • Faðir vor
 • Sálmur
 • Moldun
 • Sálmur
 • Blessun
 • Eftirspil

Stundum kastar prestur rekunum í kirkjugarðinum í stað þess að molda í kirkju.

Greftrun

Eftir athöfn í kirkju er kistan borin út. Þeir kirkjugesta sem þekktu hinn látna náið taka þátt í líkfylgdinni í kirkjugarðinn. Þar heldur athöfnin áfram:

 • Kistan er borin úr bíl og látin síga í gröfina
 • Prestur segir nokkur orð og fer með bæn
 • Syrgjendur signa yfir kistuna

Blóm eru látin til hliðar við leiðið. Þegar gröfin er frágengin eru blóm og kransar settir ofan á leiðið.

Efst á síðu

Til baka