Rómversk-kaþólska kirkjan

 

Árið 2006 voru 7.320 rómversk-kaþólskir skráðir á Íslandi en árið 2015 eru þeir 11.911.[1]

Áður fyrr var bálför ekki leyfð innan rómvesk-kaþólsku kirkjunnar. Flestir rómversk-kaþólskir kjósa enn jarðarför, þó svo að sífellt fjölgi þeim er kjósa bálför.

Útfararstofur koma með venjulegum hætti að framkvæmd útfarar en rétt er þó að geta þess að útfararhættir eru nokkuð breytilegir eftir uppruna rómversk-kaþólskra og í tilvikum innflytjenda tekur útfærslan mið af venjum heimalandsins.

Fyrir andlát er sérstaklega mælt með því að prestur sé tilkallaður þegar alvarleg veikindi eða dauðsfall ber að höndum. Jafnframt er algengt að prestur vitji safnaðarbarna sem liggja á spítala þó svo að ekki sé um alvarleg veikindi að ræða. Hafa ber samband við prest og veita hinum sjúka færi á að ræða við hann í einrúmi og e.t.v. vegna skrifta, óski sjúklingur þess.

Herbergið skal vera hreint þegar prestinn ber að garði og koma skal fyrir borði með hvítum dúki, eins konar ígildi altaris, í sjónlínu sjúklings svo hann geti fylgst með athöfninni.

Í framhaldi af samtali prests og sjúklings er fjölskylda hins síðarnefnda iðulega viðstödd þegar hann meðtekur heilagt altarissakramenti og smurningu sjúkra.

Presturinn tekur hina heilögu olíu og smyr sjúklinginn á enni og í lófa á meðan hann þylur:

„Fyrir þessa heilögu smurningu og milda miskunn sína hjálpi Drottinn þér fyrir náð Heilags anda, svo að hann, sem hefur leyst þig undan syndinni, frelsi þig og mildilega hughreysti þig.“

Smurning er ekki eingöngu veitt dauðvona fólki – oft er litið á hana sem læknandi kraft Guðs, einn og sami aðili getur þá meðtekið þetta sakramenti oftar en einu sinni.

Athöfninni lýkur með bæn og blessun.

Eftir andlát biðja prestur, aðstandendur og aðrir sem kunna að vera við dánarbeðið fyrir þeim látna. Oft fara aðstandendur með bænina Rósakransinn.

Áður fyrr var hefð fyrir líkvöku. Nú á dögum eru það aðallega innflytjendahópar sem halda í þessa hefð. Er þess þá farið á leit að líkið sé haft til sýnis í kapellu eða bænahúsi. Að baki hefðinni býr sú nána og persónulega kveðja sem í líkvökunni felst.

Rómversk-kaþólska kirkjan hefur ekki tekið afstöðu til krufningar. Þar af leiðir að hver og einn verður sjálfur að gera þetta atriði upp við sig. Í kristnum kirkjum skiptir hins vegar höfuðmáli að lík skuli meðhöndla af virðingu.

Sum lönd, t.d. Bandaríkin, krefjast þess að líksmurning skuli fara fram áður en til hugsnalegs flutnings á líki kemur. Gerist þess þörf, fer líksmurning fram á sjúkrahúsi.

Búið er um lík á hefðbundin hátt, það er þvegið og klætt. Lík presta, munka og nunna eru klædd í kufla sinnar reglu eða í samræmi við það embætti sem viðkomandi gegndi.

Notast er við hefðbundnar kistur. Hinn látni er lagður í kistuna með kross eða bænafesti í hendi. Kistulagningar kaþólskra fara nánast undantekningarlaust fram í Fossvogskapellu nokkrum dögum eða skömmu fyrir útförina, þ.e. með sama hætti og hjá þjóðkirkjunni.

Andlátstilkynning er birt á hefðbundinn hátt í dagblaði en fyrir ofan krossinn í tilkynningunni skulu standa bókstafirnir RIP sem er skamtöfun á lat. Requiescat in pace, sem merkir „Hvíl í friði“.

Andlát er einnig tilkynnit í guðsþjónustu og er þá ætíð beðið fyrir hinum látna.

Aðstandendur velja þær blómaskreytingar og tónlist sem henta þykja við útförina.

Páskakertinu er komið fyrir við kistuna; ef verið er að jarðsyngja prest eru kaleikur og stóla lögð við kistulokið. Stundum er óskað eftir því að minnig hins látna sé heiðruð með framlagi til góðs málefnis í stað blóma.

Sé þess kostur, skal útförin gerð frá safnaðarkirkjunni þar sem sálumessa er haldin. Ef þetta er ekki gerlegt fer athöfnin fram í kapellu án messu.

Kistan er staðsett fyrir framan altarið og skreytt á venjubundinn hátt, þó þannig að auðvelt sé fyrir prestinn að ganga umhverfis hana.

Sjálf athöfnin fer fram í messu sem nefnist „Requiem“ eða „Sálumessa“; í henni er beðið og sungið fyrir sálu hins framliðna. Yfirleitt flytur presturinn ekki minningarorð þar sem talað er vítt og breitt um ævi hins látna. Áhersla er aftur á móti lögð á bæn fyrir þeim sem hefur kvatt þennan heim. Eftir athöfnina stökkvir presturinn vígðu vatni á kistuna og veifar reykelsi að henni. Því næst er kistan borin út undir orgelleik.

Að athöfn lokinni í kirkjunni er haldið til grafreitis og stutt athöfn haldin við gröfina. Presturinn blessar gröfina og kistuna með vígðu vatni áður en kistan er látin síga. Að svo búnu fer hann með bæn og kastar rekunum.

Litirnir sem helgisiðir mæla fyrir um við útför eru svart og fjólublátt. Hvítt er hins vegar sorgarlitur t.d. í Víetnam og er því stundum notaður.

Jarðsetja má duftker án þess að prestur sé viðstaddur.

Hvort erfidrykkja sé haldin, veltur á aðstandendum eða vilja hins látna.

Rómversk-kaþólskir eru ekki andvígir því að vera jarðsettir í almennum grafreitum. Í ýmsum löndum hafa þeir þó sér grafreit en hérlendis er rómversk-kaþólskur grafreitur aðeins til í Landakoti, en þar eru einungis jarðsettir biskupar, prestar og reglusystur.