Erfðaskrár og kaupmálar

Margar ástæður geta legið að baki því að skynsamlegt og rétt er að skoða hvernig farið verður með eigur manna að þeim látnum. Með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan getur þú séð dæmi um það hvernig hægt er að breyta stöðu aðstandenda sinna með erfðaskrá og/eða kaupmála.

Í samfélagi okkar eru fjölskyldurnar fjölbreyttar og þá geta erfðamálin verið flókin og mörg dæmi eru um að fólk hafi ekki gert sér grein fyrir stöðu sinni. Sem dæmi má taka að sambúðarfólk tekur ekki arf hvort eftir annað og lögin takmarka rétt giftra maka til setu í óskiptu búi ef sá skammlífari á börn utan hjónabands.

Með ritun erfðaskrár og kaupmála er hægt að bæta og breyta rétti aðstandenda. Sé ekki um neina lögerfingja að ræða, er mönnum heimilt að ráðstafa eigum sínum að vild eftir sinn dag með ritun erfðaskrár og erfðalögin veita ákveðið svigrúm þótt menn eigi lögerfingja. Þannig er hægt að ráðstafa 1/3 eigna sinna með erfðaskrá. Það er líka hægt að binda arf kvöðum með ritun erfðaskrár, t.d. með því að mæla fyrir um að arfur skuli vera séreign erfingjans í hjónabandi hans.

Hjúskaparlögin gera ráð fyrir svigrúmi hjóna til að kveða á um séreignir sínar með gerð kaupmála. Kaupmáli getur þannig haft áhrif á töku arfs, haldi hann gildi sínu við andlát.

Til baka