Útgefið og birt efni

Hér fyrir neðan birtast greinar og viðtöl sem birst hafa um starfsemi Útfararstofunnar:

__________________________________________________________________________________________________________________________

Í Tímariti félagsráðgjafa 2017, birtist viðtal við Emilíu Jónsdóttur, félagsráðgjafa sem hóf störf hjá Útfararstofu Kirkjugarðanna árið 2016:                                                                             

 

                                                                       Félagsráðgjafar á nýjum starfsvettvangi

 Emilía Jónsdóttir                                                           Þröstur Haraldsson

 

Menntunin og reynslan nýtast mér vel

Emilía Jónsdóttir félagsráðgjafi hóf störf hjá Útfararstofu kirkjugarðanna í lok síðasta árs

– Hér starfa ég við að taka á móti að standendum þegar andlát hefur átt sér stað og aðstoða þá við að skipuleggja alla þætti útfarar, segir Emilía Jónsdóttir félagsráð gjafi þegar blaðamaður Tímarits félagsráðgjafa hittir hana að máli á skrifstofu Útfararstofu kirkjugarðanna í Fossvogi. – Það getur átt við andlát hérlendis eða erlendis, svo sem þegar þarf að flytja hinn látna heim frá útlöndum eða til útlanda. Þetta innifelur allt sem gera þarf, við bjóðum til samtals, þar sem við leitumst við að fá fram óskir og væntingar varðandi útförina. Í framhaldi samtalsins pöntum við kirkju og prest, útvegum tónlist og blóm og annað sem til þarf, bætir hún við.

Emilía lærði félagsráðgjöf hér á landi og hóf störf strax að námi loknu hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar. Þar sinnti hún almennri félagslegri ráðgjöf í rúm tíu ár áður en hún flutti sig um set í Fossvoginn 1. desember síðastliðinn. Hún segir að það hafi blundað með henni nokkuð lengi að fara inn á þennan vettvang.

– Ég frétti af starfi hér fyrir tveimur árum en var þá á leið í fæðingarorlof. Svo ákvað ég að senda inn umsókn í fyrra og þá vildi svo til að það stóð til að ráða. Í millitíðinni skrifaði ég raunar meistaraprófsritgerð um félagsráðgjafa sem voru í óhefðbundnum störfum. Mig grunaði þó ekki fyrir ári að ég yrði fljótlega komin í spor viðfangsefna minna. En ég var greinilega farin að kynna mér þetta ómeðvitað.

Fjölþætt þjónusta

Hún er ekki í vafa um að menntun sín og reynsla sem félagsráðgjafi nýtist sér vel í þessu starfi.

– Ég finn hvað starfsreynslan og menntunin nýtist mér vel. Hér hitti ég þverskurð af þjóðfélaginu, fólk í alls konar stöðu. Sumir voru í erfiðleikum fyrir, jafnvel eftir ítrekuð áföll. Oft þarf að aðstoða fólk við að sækja um útfararstyrki og annað og leita eftir réttindum sem fólk hefur. Samtalstæknin nýtist ekki síður vel. Stundum eru aðstandendur mjög ósammála, geta jafnvel ekki hugsað sér að hittast, og þá er það mitt hlutverk að benda þeim á aðrar leiðir og hafa milligöngu. Sorgin tekur á sig ýmsar myndir og þar kemur reynsla félagsráðgjafans að góðum notum.

– Svo getur ýmislegt bæst við, til dæmis aðstoð við gerð erfðaskrár og að skrá hinsta vilja fólks þar sem fólk gefur fyrirmæli um eigin útför sem við varðveitum. Við veitum foreldrum sem missa börn sérstaka þjónustu, þeir fá ókeypis kistu og alla útfararþjónustuna og við erum með konur á okkar snærum sem búa til kærleiksteppi sem hægt er að setja í kisturnar.

– Auðvitað tekur það á að heyra harmagrát foreldra sem hafa misst börnin sín. Þá er gott að hafa gott sam starfs fólk að tala við. Að sama skapi er það gefandi að geta létt undir með fólki, til dæmis að útvega tónlistarfólk og blóm, þannig að ættingjarnir þurfi ekki að hafa þær áhyggjur. Nóg er nú samt. Við sinnum yfirleitt ekki neinni sorgarúrvinnslu, það taka prestarnir að sér. En við leiðbeinum fólki ef það vantar aðstoð, segir hún.

Þverfaglegt teymi

Hún segist vera mjög sátt við þetta starf og finnst hún vera á réttri hillu. – Ég hef líka heyrt að samstarfsfólkið er ánægt með að fá félagsráðgjafa hingað til þess að aðstoða við að sækja um hitt og þetta, ná í gögn og þess háttar. Hér starfar þverfaglegt teymi, lögfræðingur, guðfræðingur, félagsráðgjafi og fólk með alls konar menntun og reynslu sem hjálpast að. Menntun mín nýtist vel. Hér þarf ég að mæta fólki þar sem það er statt og finna lausnir og leiðir út úr öngstrætum, finna réttan söngvara eða aðra kirkju ef sú fyrsta er upptekin. Ég er meira í sambandi við presta og organista en stofnanir en vinnan er sú sama, að púsla hlutunum saman fyrir einstaklinginn, hvort sem það er endurhæfingaráætlun eða útför, þá þarf allt að smella saman, segir Emilía Jónsdóttir.

 

 

 _________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

 

Í Fréttatímanum 21. júní birtist viðtal við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur framkvæmdastjóra Útfararstofunnar. Í viðtalinu, sem lesa má hér, fer Elín yfir nýjar áherslur í starfsemi Útfararstofunnar. 

Eftirfarandi viðtal birtist við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Útfararstofunnar í VIKUDAGSKRÁNNI 13.-19. maí 2015.

Vönduð vinnubrögð og fagmennska hjá Útfararstofu Kirkjugarðanna

 Það verða allir fyrir því á lífsleiðinni að missa náinn ættingja eða ástvin. Þótt sorgin sé þungbær er að mörgu að huga og eitt af því er útförin. Hjá Útfararstofu Kirkjugarðanna starfa 10 manns með mikla starfsreynslu en frá árinu 1994 hefur útfararstofan haft umsjón með rúmlega 15.000 útförum.

Vikudagskráin hafði samband við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, lögfræðing og framkvæmdastjóra Útfararstofu Kirkjugarðanna og spurði hana m.a. að því hvað fólk ætti að gera þegar það missir náinn ættingja eða ástvin.

 

Hvert er fyrsta skrefið varðandi útförina sem fólk þarf að taka þegar það lendir í slíkri lífsreynslu að missa

náinn ættingja eða ástvin?

,,Við leggjum ríka áherslu á persónulega þjónustu og tökum vel á móti fólki. Fyrst er hringt í útfararstofuna og rætt við útfararstjóra í síma og oftast ákveðið hvenær viðtal verði. Sumir koma þó beint á skrifstofu okkar í Fossvogi. Við viljum koma til móts við óskir og fjölbreytilegar þarfir ástvina. Við leggjum áherslu á að útfararundirbúningur sé góður, persónulegur og skýr varðandi alla þætti. Útfararstofa Kirkjugarðanna er þekkt fyrir vönduð vinnubrögð og fagmennsku,” segir Elín Sigrún. ,,Útfararstjórar okkar eru Hugrún Jónsdóttir, sem hefur starfað hjá útfararstofunni yfir 20 ár og Rósa Kristjánsdóttir, djákni og hjúkrunarfræðingur. Hún kom til starfa hjá okkur í ársbyrjun og starfaði áður á Landspítalanum. Það er lán útfararstofunnar að starfsfólk hefur fjölbreytta þekkingu, menntun og mikla reynslu.“

 

Þið eruð með áratuga reynslu þegar kemur að útförum og þekkið vel til - hverjar eru helstu spurningarnar

sem þið fáið frá fólki sem leitar til ykkar?

,,Spurningarnar eru fjölmargar. Svíar hafa komist að því að það eru að meðaltali 52 spurningar sem vakna hjá ástvinum við útfararundirbúninginn. Þarfir fólks eru ólíkar og því engin ástæða til að hika við að spyrja og ræða málin. Við viljum koma til móts við óskir fólks og því eru fundirnir haldnir og samtölin mikilvæg.”

Áhersla á neytendavernd og afburðaþjónustu við viðskiptavini Þótt að sorgin sé þungbær þá spyr fólk eðlilega um kostnað við útförina þótt það vilji gera vel við látinn ættingja/ástvin. Hver er kostnaðurinn við útför, er hægt að velja um mismunandi leiðir og hvað er innifalið í kostnaðinum?

 

,,Útfararstofa Kirkjugarðanna leggur áherslu á neytendavernd og afburðaþjónustu við viðskiptavini sína. Tilgangur kirkjugarðanna með stofnun útfararstofu árið 1949 var “að lækka kostnað við útfarir og minnka allt prjál”. Þau orð voru í tíma töluð og eru sístæð áminning. Útfararstofa Kirkjugarðanna heldur upphaflegt markmið í heiðri í rekstri sínum, að halda kostnaði við útfarir eins lágum og kostur er. Við viljum líka að útfararkostnaður sé þekktur áður en til útfarar kemur og ræðum því um kostnað við ástvini. Óvæntir reikningar eiga ekki að þekkjast í útfararþjónustu. Flestir skipta við útfararstofur að meðaltali tvisvar á ævinni og á þeim tíma sem viðskiptin fara fram er fólk í sorg og á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af kostnaði eða fjármálum. Við birtum því verðskrá á heimasíðu okkar og nefnum dæmi um útfararkostnað. Látlaus útför frá kapellunni í Fossvogi kostar t.d. um 230 þúsund. En umfang útfara er breytilegt, allt eftir óskum fólks og verð fer eftir þeim óskum. Algengt er  að útfararkostnaður sé um 550 þúsund, þ.e. kostnaður vegna þjónustu útfararstofunnar, líkklæði, kista, tónlist og blóm. Kostnaður vegna erfidrykkju og auglýsinga er ekki inn í þeirri tölu en kostnaður vegna erfidrykkju fyrir 100 manns má reikna með sé frá 175.000 til 245.000 kr. Auglýsingakostnaður er oft um 100.000 kr.”

 

Líkbrennsla 41% allra útfara Hvernig jarðarfarir velur fólk helst í dag og er alltaf að aukast að fólk láti brenna sig?

,,Algengast er að útfarir fari fram frá kirkjum eða kapellum í borginni. Líkbrennsla hefur aukist mikið undanfarin ár og er nú um 41% allra útfara.”lín SigrúnJónsdóttir,ri

tfarastofuKirkjugarðanna

Og þið eruð að taka í notkun nýja heimasíðu - er hægt að fá allar upplýsingar þar?

,,Já, heimasíðan er mikilvæg upplýsingaveita. Með nýju heimasíðu útfararstofunnar geta ástvinir leitað allra helstu upplýsinga um undirbúninginn, hvernig útförin fer fram, hver kostnaðurinn er og hvað það þurfi að muna að gera. Fólk getur sent okkur fyrirspurnir og leitað eftir þjónustu rafrænt en við teljum mikilvægt að aðstandendur komi til okkar í samtal svo við getum veitt þeim persónulega þjónustu. Viðtalið kostar ekkert en hjálpar fólki að að taka ákvarðanir á erfiðum tíma.”

 

Þið bjóðið einnig upp á lögfræðiþjónustu - og skráningu hinsta vilja. Hvað er það og hver er tilgangurinn?

,,Í ljós hefur komið að margir vilja létta af ástvinum áhyggjum vegna eigin dauða og útfarar. Það er kallaður hinsti vilji þegar fólk skilur eftir sig yfirlit um hvað eigi að gera varðandi útför og hvernig útfararferlið skuli verða eða fara

fram. Fólk pantar viðtal hjá okkur til að skrá þennan hinsta vilja sinn. Starfsfólk útfararstofunnar fundar með fólki, annað hvort á skrifstofu útfararstofunnar eða á heimilum fólks,” segir Elína aðspurð um skráningu hinsta vilja og bætir við varðandi lögfræðiþjónustuna. ,,Hjá útfararstofunni er lögfræðingur, Katla Þorsteinsdóttir, að störfum og veitir þjónustu á sviði erfða- og fjölskylduréttar, allt frá ráðgjöf til skjalagerðar og umsýslu. Fyrsta viðtal er gjaldfrjálst

og á heimasíðunni má finna reiknivél, þar sem fólk getur sett inn sínar forsendur, eignir og fjölskyldustærð. Þar er hægt að sjá hver verður hlutur einstakra erfingja samkvæmt erfðalögum og sýndar leiðir til að gera breytingar þar á ef fólk óskar þess. Þetta er merkileg, mikilvæg og þörf nýung í starfi ÚK og að norræni fyrirmynd. Við höfum að markmiði að vera í hópi framsæknustu og öflugustu útfararstofa á Norðurlöndunum og eigum öflugar systurstofur í nágrannalöndum okkar sem hafa veitt okkur mikilvæga aðstoð við innleiðingu þeirra nýjunga sem við bjóðum nú upp á. Lögfræðiþjónusta útfararstofunnar er mikið og merkilegt framfaraskref.”

 

Eftir að ættingi eða ástvinur deyr - hversu langur tími líður þangað til er búið að jarða viðkomandi?

,,Í flestum tilvikum leita ástvinir til okkar strax eða fljótlega eftir andlát. Við sjáum gjarnan um að flytja hinn látna í líkhús og bjóðum ástvinum til okkar til viðtals til að undirbúa alla þætti útfarar. Tíminn frá andláti til útfarar er breytilegur en algengast er að það sé um 6-10 dagar. Sá tími getur verið styttri og hann getur verið lengri,” segir Elín að lokum.

 

Útfararstofa Kirkjugarðanna er með símanúmerið 551 1266 og netfangið: elin@utfor.is ef lesendur þurfa nánari upplýsingar.